LeBron í úrslitin fimmta árið í röð

LeBron James með boltann í baráttu við DeMarre Carroll.
LeBron James með boltann í baráttu við DeMarre Carroll. AFP

Cleveland Cavaliers varð í nótt Austurdeildarmeistari í NBA-deildinni í körfuknattleik með því að vinna 118:88-sigur á Atlanta Hawks og þar með einvígi liðanna 4:0.

LeBron James er þar með kominn í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar fimmta árið í röð en hann fór þangað fjögur ár í röð með Miami Heat og fagnaði titlinum tvisvar, áður en hann sneri aftur í heimahagana í Cleveland.

„Ég trúi því að ég eigi hér óklárað verk,“ sagði James sem ætlar sér að ljúka hálfrar aldar bið Cleveland-búa eftir meistaratitli. Til þess sneri hann aftur síðasta sumar:

„Ég skildi vel hvað fólkið hérna var að ganga í gegnum. Ekki bara í Cleveland heldur í norðaustur Ohio og alls staðar um heiminn þar sem fólk elskar og blæðir vínrauðu og gylltu. Það er tilfinningarík stund að standa í þessum sporum núna,“ sagði James.

Í úrslitunum mætir Cleveland annað hvort Golden State Warriors eða Houston Rockets.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert