Towns valinn fyrstur í nýliðavali NBA

Karl-Anthony Towns var valinn manna fyrstur.
Karl-Anthony Towns var valinn manna fyrstur. AFP

Nýliðaval NBA-deildarinnar í körfuknattleik, þar sem lið deildarinnar velja sér leikmenn sem koma úr háskólum í Bandaríkjunum eða hafa ekki spilað í NBA-deildinni áður, fór fram í gærnótt.

Minnesota Timberwolves átti fyrsta valið í ár og kom fáum á óvart þegar liðið valdi miðherjann Karl-Anthony Towns úr Kentucky Háskólanum. Towns er stór og sterkur miðherji, fullkominn fyrir ungt lið Minnesota sem er í uppbyggingu. Karl-Anthony Towns og Andrew Wiggins, sem var valinn fyrstur í nýliðavalinu í fyrra, munu örugglega leika saman í mörg ár og ber að hafa auga með þessu tvíeyki Minnesota.

Annað valið átti Los Angeles Lakers sem valdi bakvörðinn D'Angelo Russell úr Ohio State háskólanum. Russell getur bæði spilað sem leikstjórnandi og skotbakvörður. Valið kom á óvart, helstu spámenn töldu líklegast að miðherjinn Jahlil Okafor yrði fyrir valinu, og ýtir undir þann grun manna að Lakers telji sig eiga góðar líkur á að fá mann eins og Lamarcus Aldridge í sumar.

Jahlil Okafor úr Duke háskólanum féll niður um sæti og fór til Philadelphia 76ers. Þetta er þriðji miðherjinn sem Philadelphia tekur í nýliðavalinu í röð sem er vægast sagt áhugavert. 

New York Knicks kom öllum að óvörum þegar það valdi Lettann Kristaps Porzinigis frá Sevilla á Spáni. Porzinigis er 19 ára gamall og getur spilað bæði sem framherji og miðherji. Hann er um 216 cm á hæð og sýndi gríðarlegt efni á prufuæfingum síðastliðnar vikur. Helstu áhyggjuefnin varðandi Porzinigis eru líkamsbyggingin, en hann er heldur mjór, og sú staðreynd að erfitt er að reikna með því hversu vel leikmönnum sem koma úr evrópskum deildum muni ganga í NBA-deildinni.

Emmanuel Mudiay og Justise Winslow þurftu að bíta í það súra epli að falla neðar en þeim hafði verið spáð. Helstu sérfræðingar töldu að þeir yrðu fyrir valinu á milli 4-6. sætis en Mudiay var valinn sjöundi af Denver og Winslow var valinn tíundi af Miami Heat. Winslow gæti orðið mikill liðsstyrkur fyrir Heat sem ætlar sér að berjast um sæti í úrslitakeppninni á næsta ári.

Sjá má nánar um nýliðavalið á heimasíðu NBA-deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert