Fúlt að missa af þessu

Kristófer Acox í leik með íslenska landsliðinu.
Kristófer Acox í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Kristófer Acox, landsliðsmaður í körfubolta, segir það hundfúlt að geta ekki leikið með liðinu á Evrópumótinu sem fer fram í september, en þetta kemur fram á Karfan.is í dag.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær þá taldi Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður KKÍ, ólíklegt að Kristófer kæmist með liðinu á Evrópumótið, en Kristófer er á skólastyrk hjá Furman-skólanum í Suður-Karólínu.

Bæði skólinn og liðið reyndu að gera allt sem í þeirra valdi stóð til þess að láta draum Kristófers um að komast á EM rætast, en niðurstaðan var hins vegar sú að hann getur ekki farið enda yrði hann frá í þrjár vikur frá skóla.

"Það er auðvitað fúlt að missa af þessu. Ég vissi að það væri lítil von um að komast en bæði skólinn og liðið reyndu allt hvað þau gátu til að láta þetta ganga upp. Ég er mjög þakklátur fyrir það og vona bara að það verði fleiri svona tækifæri fyrir mig í framtíðinni,“ sagði Kristófer í samtali við Karfan.is.

Skólinn var reiðubúinn til þess að leyfa honum að fá frí í þeirri viku sem mótið er haldið, en þá þyrfti undirbúningur hans að fara fram í Suður-Karólínu á meðan íslenska landsliðið myndi æfa saman á Íslandi.

„Það gengur bara ekkert upp og er ósanngjarnt gagnvart  KKÍ og hinum í liðinu. Maður verður að taka fullan þátt í undirbúningnum fyrir svona stórt mót og ekki bara hoppa inn þegar það er korter í mót,“ sagði Kristófer að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert