Mögnuð endurkoma hjá Curry

Stephen Curry fagnar eftir að hafa skorað í framlengingunni í …
Stephen Curry fagnar eftir að hafa skorað í framlengingunni í nótt. AFP

Stephen Curry sneri aftur á körfuboltavöllinn í nótt eftir fjarveru vegna meiðsla og sá til þess að Golden State Warriors knúði fram sigur í framlengingu gegn Portland Trail Blazers í undanúrslitum Vesturdeildar NBA.

Liðin mættust í Portland í fjórða leik sínum þar sem heimaliðið freistaði þess að jafna metin gegn deildarmeisturunum sem voru nánast ósigrandi í vetur. Staðan var 111:111 eftir venjulegan leiktíma en í framlengingunni tók Curry algjörlega völdin á vellinum. Hann skoraði hvorki fleiri né færri en sautján stig sem er NBA-met í framlengingu. Golden State vann 132:125, er komið í 3:1 í einvíginu og nú er nánast formsatriði fyrir liðið að tryggja sér sæti í úrslitunum.

Curry, sem hafði ekki spilað gegn Portland eftir að hann meiddist gegn Houston í átta liða úrslitunum, skoraði samtals 40 stig í leiknum en var ryðgaður í fyrstu þremur leikhlutunum.

„Ég elska leikinn, ég elska að spila og berjast, og ég saknaði þess virkilega að vera ekki inni á vellinum með samherjum mínum. Það er notaleg tilfinning að hafa náð að hjálpa liðinu að sigra, við þessar aðstæður og á þennan hátt," sagði Curry við fréttamenn. Hann var ekki í byrjunarliðinu og til stóð að hann myndi spila um það bil 25 mínútur en þær urðu tæplega 37 þegar upp var staðið.

Klay Thompson skoraði 23 stig fyrir Golden State en Damien Lillard var stigahæstur hjá Portland með 36 stig og átti 10 stoðsendingar.

Golden State getur nú tryggt sér sigur í einvíginu á heimavelli sínum í Oakland aðfaranótt fimmtudags.

Wade bjargvættur Miami

Miami Heat jafnaði metin í 2:2 gegn Toronto Raptors með sigri á heimavelli, 94:87, í nótt en þar þurfti líka að framlengja. Staðan var 83:83 eftir venjulegan leiktíma en Toronto skoraði aðeins fjögur stig í framlengingunni.

Dwyane Wade var maðurinn á bakvið sigur Miami en hann skoraði 30 stig og það var hann sem jafnaði metin í lok venjulegs leiktíma eftir að Miami hafði verið níu stigum undir þegar skammt var eftir.

Goran Dragic og Joe Johnson skoruðu 15 stig hvor fyrir Miami en Terrence Ross og Cory Joseph voru með 14 stig hvor fyrir Toronto. Nú fara liðin norður til Toronto og mætast þar í fimmta leiknum annað kvöld.

Dwyane Wade reynir skot fyrir Miami í framlengingunni í nótt.
Dwyane Wade reynir skot fyrir Miami í framlengingunni í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert