Meistararnir eru vaknaðir til lífsins

Stephen Curry leikmaðurinn frábæri í liði Golden State.
Stephen Curry leikmaðurinn frábæri í liði Golden State. AFP

Meistarar Golden State Warriors unnu sögulegan sigur, 4:3, á Oklahoma City Thunder í úrslitarimmu Vesturdeildar á mánudagsvöld hér í Kaliforníu og eru þar með komnir í lokaúrslitin gegn Cleveland Cavaliers – sömu liðin og léku til úrslita í NBA-deildinni í fyrra.

Úrslitakeppnin í Vesturdeildinni var geysihörð að venju og á endanum voru það tvö bestu lið deildarinnar sem þar börðust. Fyrir sjöunda leik Warriors og Thunder hafði mikið gerst í fyrstu sex leikjunum. Thunder komst í 3:1 forystu og var að leika mun betur. Meistaravonir Warriors voru á sama tíma í öndunarvél. Leikmenn meistaranna náðu hins vegar áttum í fimmta leik liðanna í síðustu viku og sneru þessari leikseríu sér í hag í þremur frábærum sigrum í lokin. Allt á sex dögum.

Leikmenn Oklahoma City komu með rétt hugarfar í þennan leik og voru ávallt í forystunni – mest 13 stig – í fyrri hálfleiknum. Enn á ný var það þó þriggja stiga „rigning Golden State“ – í þetta sinn í þriðja leikhlutanum – sem sneri þessum leik við. Klay Thompson fór enn aftur í gang um miðjan þriðja leikhlutann í jöfnum leik og hann lagði grunninn að 26:6 sprengju heimamanna, sem sneri þessum leik algerlega við. Allt í einu voru það heimamenn sem komust í 88:77 og þrátt fyrir að Oklahoma City næði að minnka muninn í fjögur stig þegar rúmar tvær mínútur voru eftir voru það meistararnir sem innsigluðu öruggan sigur í lokin, 96:88.

Þetta var aðeins í tíunda sinn af 243 möguleikum sem lið nær að vinna upp 1:3 leikjastöðu í sjö leikja rimmu. Sannarlega sögulegt afrek Golden State.

Sjá ítarlega umfjöllun um NBA í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert