Jón og félagar skelltu Real Madrid

Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Jón Arnór Stefánsson og samherjar í Valencia eru enn með í baráttunni um spænska meistaratitilinn í körfuknattleik eftir að þeir lögðu Real Madrid í þriðja leik liðanna í undanúrslitunum í kvöld, 87:86, í framlengdum leik á heimavelli.

Real vann fyrstu tvo leikina í Madrid og hefði verið komið í úrslit með sigri í kvöld. Valencia náði að knýja fram framlenginguna með þriggja stiga körfu undir lokin, 74:74, og vann síðan eftir æsispennandi baráttu í lokin þar sem Real var yfir, 85:82, þegar stutt var eftir.

Jón lék í rúmar 20 mínútur í kvöld og skoraði þrjú stig, úr þriggja stiga skoti, og tók eitt frákast.

Liðin mætast í fjórða sinn á fimmtudagskvöldið, aftur í Valencia, og þar fá heimamenn því tækifæri til að knýja fram oddaleik sem yrði í Madríd á laugardagskvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert