Stjarnan semur við þrjá leikmenn

Sylvía Rún Hálfdánardóttir, hér í búningi Hauka, hefur samið við …
Sylvía Rún Hálfdánardóttir, hér í búningi Hauka, hefur samið við Stjörnuna. mbl.is/Golli

Kvennalið Stjörnunnar í körfuknattleik hefur styrkt lið sitt fyrir komandi tímabil og hefur samið við þrjá nýja leikmenn.

Um er að ræða þær Danielle Rodriguez, sem kemur úr bandaríska háskólaboltanum, hina 15 ára Sigrúnu Guðnýju Karlsdóttur sem kemur frá Ármanni og landsliðskonuna Sylvíu Rún Hálfdánardóttur sem kemur frá Haukum.

Rodriguez er 22 ára leikstjórnandi sem er að hefja sitt fyrsta ár sem atvinnumaður. Hún útskrifaðist frá Utah og er 178 cm á hæð. Hún var með 9,8 stig, 4,2 stoðsendingar og 3,6 fráköst að meðaltali í háskólaboltanum.

Sigrún Guðný hefur æft með meistaraflokki frá því í sumar og mun spila með meistaraflokki og unglingaflokki Stjörnunnar, en Stjarnan og Ármann munu tefla fram sameiginlegu liði í unglingaflokki.

Sylvía Rún Hálfdánardóttir er að verða 18 ára gömul og er ein af efnilegri leikmönnum landsins. Hún var í stóru hlutverki með 18 ára landsliðinu í sumar ásamt því að hafa spilað sína fyrstu A-landsliðsleiki núna í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert