Meistararnir steinlágu á heimavelli

LeBron James og félagar í Cleveland steinlágu á heimavelli í …
LeBron James og félagar í Cleveland steinlágu á heimavelli í nótt. AFP

Meistaralið Cleveland Cavaliers steinlá á heimavelli í gærkvöldi fyrir LA Clippers í NBA-deildinni í körfuknattleik, 113:94. Leikmenn Clippers voru mikið sterkari og léku afar vel í öðru og þriðja leikhluta sem þeir unnu af talsverðu öruggi.

Þetta var fjóra tap Cavaliers í 17 leikjum á leiktíðinni. Clippers hefur unnið 15 af 20 leikjum sínum. J.J. Redick skoraði 23 stig fyrir Clippers og Chris Paul 16. Kyrie Irving skoraði 28 stig fyrir Cavaliers og þeir LeBron James og Kevin Love voru næstir með 16 stig hvor. 

Liðsmenn Golden State Warriors máttu einnig bíta í það súra epli að tapa á heimavelli þegar þeir tóku á móti liði Houston Rockets. Leikurinn var hnífjafn og æsilega spennandi. Tvær framlengingar þurfti til þess að knýja fram úrslit, 132:127.

James Harden og Ryan Anderson skoruðu 29 stig fyrir hvort fyrir Rockets-liðið. Harden tók auk þess 15 fráköst átti 13 stoðsendingar. Eric Gordon skoraði 23 stig.  Kevin Durant skoraði 39 stig og tók 13 fráköst fyrir Warriors. Stephen Curry skoraði 28 stig. 

Sex leikir voru á dagskrá NBA-deildarinnar í gærkvöldi og í nótt. Úrslit þeirra eru sem hér segir: 

Charlotte - Detroit 97:87
Brooklyn - Milwaukee 93:111
Memphis - Orlando 95:94
Cleveland - LA Clippers 94:113
Utah Jazz - Miami Heat 110:111
Golden State - Houston 127:132 - eftir tvær framlengingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert