Snæfell þriðja liðið í undanúrslit

Gunnhildur Gunnarsdóttir og stöllur í Snæfelli eru komnar í undanúrslit.
Gunnhildur Gunnarsdóttir og stöllur í Snæfelli eru komnar í undanúrslit. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Snæfell er þriðja liðið sem tryggir sig inn í undanúrslit Maltbikars kvenna eftir 68:63 sigur á Stjörnunni í hörkuleik í Stykkishólmi í dag. 

Jafnræði var með liðunum frá upphafi og munaði aðeins þremur stigum eftir fyrsta leikhluta en þá var Snæfell 16:13 yfir. 

Stjarnan spilaði 2. leikhluta mjög vel og voru þær með fjögurra stiga forskot í hálfleik, 31:27. Jafnræðið hélt svo áfram allt til loka og var Snæfell 64:63 yfir þegar tvær mínútur voru til leiksloka. 

Svo fór að Snæfell hafði betur eftir spennandi lokakafla og er Snæfell því þriðja liðið til að tryggja sæti sitt í undanúrslitunum en áður höfðu Keflavík og Haukar komist í undanúrslit. Danielle Rodriguez skoraði 23 stig fyrir Stjörnuna og Ragna Margrét Brynjarsdóttir 11. Aaryn Wiley var með 24 fyrir Snæfell og Gunnhildur Gunnarsdóttir 18. 

Skallagrímur og KR keppa síðan um síðasta sætið í undanúrslitum annað kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert