Erum á pari við bestu liðin í deildinni

Logi Gunnarsson í baráttu við Anthony Odunsi í leiknum í …
Logi Gunnarsson í baráttu við Anthony Odunsi í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

Logi Gunnarsson skoraði 19 stig og var stigahæstur Njarðvíkinga í 74:72 sigri á Stjörnunni í Dominos-deildinni í körfubolta í kvöld. 

Eins og lokatölurnar gefa til kynna, var leikurinn jafn og spennandi allt til loka. Logi segir Njarðvíkinga kunna að spila eins jafna leiki, þó að þeir hafi verið að daðra við fallsætin í deildinni í vetur. 

„Við vissum að síðustu mínúturnar gætu farið hvernig sem er, sérstaklega gegn góðu liði eins og Stjörnunni. Við höfum hins vegar unnið hérna þrisvar í röð, ef við teljum úrslitakeppnina í fyrra með. Við erum vanir að vera í jöfnum leikjum hérna og við kunnum að spila jafna leiki þó að staðan í deildinni sýni annað.“

„Við erum á pari við bestu liðin í deildinni þegar við spilum vel. Við spiluðum þó ekki mjög vel í dag en unnum þrátt fyrir það gott lið.“

Justin Shouse var ekki með Stjörnunni í kvöld en Logi segir það ekki endilega hafa hjálpað Njarðvíkingum. 

„Auðvitað vantar einn af máttarstólpum þeirra í dag en stundum er erfiðara að mæta liðum sem sakna leikmanns. Ég er mjög stoltur af okkur að ná að klára leikinn á síðustu mínútunum, þó að þeir hafi sett pressu á okkur og komist yfir þegar mínúta var eftir.“

Hann viðurkennir að úrslitin séu eflaust óvænt fyrir einhverja, þó ekki þá sem fylgjast vel með körfubolta enda Njarðvík stórveldi í körfuboltanum hér á landi. 

„Kannski fyrir þá sem eru ekki eins mikið í körfuboltanum. Þeir sem vita um Njarðvík og fyrir hvað við stöndum kom þetta ekki á óvart. Við vorum í 7. sæti í fyrra, þeir í 2. sæti og við slógum þá út. Við vitum hvað er að vinna þótt við höfum verið í basli í vetur. Núna finnst mér við hægt og bítandi að verða betri.“

Hann segist ekkert hafa hugsað um fallsætin, þó að gengi liðsins hafi ekki verið með besta móti á tímabilinu. 

„Það er ekki í myndinni, ég hugsa bara um hvaða sæti við ætlum að ná inn í úrslitakeppnina,“ sagði Logi að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert