Þeir eru með einn besta leikmann sem Ísland hefur alið

Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Alveg í blálokin var þetta furðulegt, við vorum ekki vissir um hvað væri mikið eftir. Það var eins og við værum að bíða eftir að Logi myndi skora úr víti og við myndum svo taka leikhlé sem kom aldrei. Þetta var klúður í restina,“ sagði Hlynur Bæringsson, leikmaður Stjörnunnar, eftir 74:72 tap gegn Njarðvík í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. 

Stjarnan hefði getað jafnað og jafnvel unnið leikinn í síðustu sókn sinni en leiktíminn rann út áður en þeir náðu að koma skoti á körfuna. Hlynur segir að þriggja stiga karfa frá Birni Kristjánssyni undir lokin hafi verið dýrkeypt og leit hann í eigin barm vegna hennar. 

„Við áttum þröngvað skot, svo setti Bjössi risaþrist þar sem ég hefði kannski átt að vera ákveðnari og láta hann frekar hlaupa á mig, sem hefði verið betra en að láta hann fá frítt skot.“

Hlynur segir þessi úrslit ekki endilega koma á óvart, þó að Stjarnan sé í toppbaráttu og Njarðvík sé á meðal neðstu liða deildarinnar. 

„Þetta kemur ekkert á óvart, það er grín að þeir séu í tíunda sæti, þeir eru með tvo ameríska leikmenn og einn besta leikmann sem Ísland hefur alið, Loga. Liðið þeirra er troðfullt af unglingalandsliðsmönnum og þeir fengu fullt af mönnum fyrir tímabilið en það gekk mikið á hjá þeim. Njarðvík er ekki lið sem á heima í tíunda sæti.“

Justin Shouse, einn allra besti leikmaður Stjörnunnar, var ekki með í dag og viðurkennir Hlynur að það hafi verið dýrkeypt. 

„Að sjálfsögðu, hann er mikilvægur hjá okkur og ákveðinn drifkraftur. Hann er mikill íþróttamaður sem er góður í að rífa menn áfram. Auðvitað söknuðum við hans en við vorum með nógu gott lið til að vinna þennan leik. Það hefur vantað eitthvað hjá Njarðvík í allan vetur og við eigum að þola þetta.“

Athygli vakti að Njarðvík fékk dæmd tvö stig er Hlynur sló boltann af hringnum á körfunni. Það var löglega gert hjá honum og hefði Stjarnan því átt að fá boltann. Í staðinn fékk Njarðvík tvö stig og Hlynur fékk tæknivillu fyrir mótmæli sín í kjölfarið. 

„Boltinn var lifandi að mínu mati og ég held að dómarinn hafi ekki verið viss, hann hefur ekki dæmt marga svona dóma. Ég fór ekki í netið, ég fór ekki undir eða neitt þannig. Hann ruglaðist, það varð smá ringulreið eftir þetta. Þetta er ekkert sem ég hugsa út í núna. Það gera allir mistök og ég átti skilið að fá tæknivillu fyrir að rífast,“ sagði Hlynur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert