Vissi ekki af félagsskiptum Thomas

Benedikt Guðmundsson.
Benedikt Guðmundsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þór frá Akureyri, var mjög sáttur eftir 100:89 sigur sinna manna á Skallagrím í Borgarnesi i kvöld. Leikurinn var hluti af 14. umferð Dominos deildar karla í körfubolta. 

Skallagrímur byrjaði leikinn betur og var Benedikt ekki sáttur við varnarleik sinna manna framan af leik. Hann var hins vegar mjög sáttur við svar þeirra, eftir því sem leið á leikinn. 

„Við vorum lengi í gang og sérstaklega í vörninni á meðan við vorum á pari í sókninni. Við vorum ekki að gera það sem við ætluðum að gera í vörninni framan af. Við vorum búnir að fara vel yfir þeirra lið en við náðum ekki að framkvæma það sem var lagt upp með. Það lagaðist síðan eftir því sem leið á leikinn. Við fundum betri takt í vörninni í öðrum leikhluta og svo var hún virkilega góð í seinni."

„Þetta var leikur þar sem liðin skiptust á að eiga góða kafla. Við lentum bæði tíu stigum undir og komumst tíu stigum yfir. Þetta er svo fljótt að breytast og sérstaklega í þessu húsi."

Darrel Lewis átti mjög góðan leik og skoraði hann 35 stig og tók tíu fráköst. Benedikt segir þetta annan af tveim bestu leikjum hans á leiktíðinni. 

„Annar af tveim, ég man eftir einum öðrum þar sem hann var svona frábær. Hann var gjörsamlega frábær í kvöld. Hann á nóg eftir þó hann sé að verða 41 árs. Þröstur kom með góða innkomu, Sindri, Ragnar, Ingvi sömuleiðis. Kaninn okkar var svo duglegur þó það væri ekki allt að ganga hjá honum. Tryggvi var aðeins ólíkur sjálfum sér en hann vann vel og varð betri eftir því sem leið á leikinn." 

Þrátt fyrir að lið Benedikts sé í 4. sæti í deildinni, er hann niðri á jörðinni. Sætið í deildinni er ekki einu sinni tryggt að hans mati. 

„Við settum það markmið fyrir tímabilið að vera í úrslitakeppninni. Þá hefst nýtt mót en við hofum ekki endilega á eitthvað sæti. Það er stutt upp en á sama tíma ógeðslega stutt niður. Við erum ekki einu sinni búnir að tryggja veru okkar í deildinni."

Danero Thomas skipti úr Þór yfir í ÍR í kvöld og vissi Benedikt það ekki. Blaðamaður mbl.is færði honum þær fréttir.

„Þú ert að segja mér fréttir, ég vissi það ekki," sagði Benedikt léttur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert