Enn tapar Skallagrímur

Magnús Þór Gunnarsson, leikmaður Skallagríms sækir að Keflvíkingnum Ágústi Orrasyni.
Magnús Þór Gunnarsson, leikmaður Skallagríms sækir að Keflvíkingnum Ágústi Orrasyni. mbl.is/Skúli Sigurðsson

Skallagrímur tapaði sínum fimmta leik í röð í Dominos-deild karla í kröfubolta í kvöld. Borgnesingar fóru þá í heimsókn til Keflavíkur þar sem heimamenn höfðu betur, 93:80.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is.

40. Leik lokið. Ekkert lát var á fjörinu í Keflvíkingum sem lokuðu þriðja leikhluta með látum og hófu þann fjórða vel og fljótlega var munurinn orðinn 20 stig, 77-57. Reggi Dupree náði að tengja þrist og Daði Lár Jónsson sömuleiðis og vindurinn lak hægt en örugglega úr blöðru Skallagríms. Borgnesingar hreinlega litu ekki út í kvöld fyrir að vera lið sem er að berjast fyrir lífi sínu en að sama skapi voru Keflvíkingar vel stilltir og þegar Stevens var ekki að hrella gestina átti Guðmundur Jónsson flottar rispur. Lokatölur voru 83-80 Keflavík í vil þar sem Amin Stevens bauð upp á myndarlega tvennu með 31 stig og 20 fráköst og Guðmundur Jónsson bætti við 22 stigum og 6 fráköstum. Hjá Skallagrím voru þeir Flenard og Sigtryggur allt í öllu, báðir með 23 stig og Flenard auk þess með 17 fráköst og Sigtryggur 7.

30. Þriðja leikhluta er lokið. Guðmundur Jónsson fann sig vel í Keflavíkurliðinu í upphafi síðari hálfleiks, ef hann var ekki að loka á sóknartilburði gestanna þá var hann að „setj´ann“ og kom t.d. Keflavík í 56-43 með þriggja stiga körfu. Magnús Þór Gunnarsson kom muninum niður í 10 stig fyrir Skallagrím, 56-46, þegar hann setti sinn fyrsta þrist á gamla heimavellinum og það í fimmtu tilraun. Magnús var ekki hættur heldur splæsti í annan langdrægan og minnkaði muninn í 58-51. Gestirnir náðu svo að minnka muninn í fimm stig 58-53 þegar Flenard náðir sóknarfrákasti og skoraði en þá sagði Guðmundur Jónsson hingað og ekki lengra, límdi saman átta stiga syrpu fyrir Keflavík með tveimur mögnuðum þristum og „hark“-körfu í teignum og Keflvíkingar leiddu 68-53 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Rétt eins og í fyrsta leikhluta  sveið gestunum einbeitingarskortur sinn á lokametrum leikhlutans.

20. Hálfleikur. Staðan er 45:35. Keflvíkingar komust í 34-23 eftir tveggja mínútna leik í öðrum leikhluta. Finnur Jónsson, þjálfari Skallagrímsmanna, var allt annað en sáttur með varnarframmistöðu þeirra Flenard og Flake sem létu Amin og aðra stóra leikmenn Keflavíkur leika sig grátt. Eftir fjórar mínútur í öðrum leikhluta var 4-3 í stigaskorinu fyrir Keflavík, s.s. enginn rjómi af körfubolta í gangi en fín barátta en bæði lið þónokkuð mistæk. Borgnesingar fengu loks smá rispu í sinn leik og náðu að minnka muninn í 34-29 eftir þrist frá Sigtryggi Arnari en þá kom 8-0 mótsvar hjá Keflvíkingum og liðlega tvær mínútur til hálfleiks. Seinni fimm mínúturnar umtalsvert líflegri í öðrum hluta en þær fyrri en þó fremur rislár fyrri hálfleikur.

Keflvíkingar héldu Borgnesingum í þetta 10 stiga fjarlægð út leikhlutann og leiddu 45-35 í hálfleik. Amin Stevens var stigahæstur hjá Keflavík með 17 stig og 11 fráköst í hálfleik en hjá Skallagrím var Sigtryggur Arnar Björnsson með 13 stig og 5 fráköst.

10. Fyrsta leikhluta er lokið. Staðan er 34:23 Jafnt var á öllum tölum fyrstu mínúturnar en Amin Stevens kom Keflavík í 11-7 með körfu í teignum. Fyrstu mínúturnar voru fremur lágstemmdar en Daði Lár Jónsson kom ferskur inn af Keflavíkurbekknum og breytti stöðunni í 14-10 með þriggja stiga körfu. Sjö Keflavíkurstig í röð breyttu stöðunni í 26-19 þegar rúm mínúta var eftir af fyrsta leikhluta en vörn Borgnesinga missti einbeitinguna síðustu mínútur leikhlutans og því voru gestirnir 30-20 undir eftir fyrstu 10 mínútur leiksins. Stevens var með 11 stig og 5 fráköst hjá Keflavík eftir upphafsleikhlutann en Sigtryggur Arnar var með 7 stig í liði Skallagríms.

1. Leikurinn er hafinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert