„Ætluðum að leyfa þeim að skjóta“

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs.
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs á Akureyri, gat brosað breitt í kvöld eftir að menn hans höfðu farið illa með lið KR í Dominos-deild karla. Norðanmenn voru töluvert betri og unnu loks 83:65.

Benedikt fékk nokkrar spurningar.

Er ekki sérlega auðvelt að undirbúa mannskapinn fyrir leik gegn KR?

„Það er kannski ekkert auðvelt en menn eru samt einhvern veginn miklu tilbúnari en oft áður. Hjartað slær aðeins hraðar. Ég held að þetta sé fyrsti leikurinn minn á ferlinum þar sem ég mæti Jóni Arnóri. Það var pínu skrýtið að hafa hann í liði andstæðinganna. Fyrir utan það þá var þetta eins og hver annar leikur.“

Lagðirðu upp með að KR-ingarnir gætu orðið ólíkir sjálfum sér eftir að hafa hampað Bikarmeistaratitlinum síðasta sunnudag?

„Við töluðum ekkert sérstaklega um það. Maður veit það samt að það er erfitt fyrir lið sem er nýbúið að vera í stórum leik og lyfta bikar að gíra sig upp í venjulegan deildarleik. Auðvitað ætla menn sér ekki að slaka á en það er oft eitthvað í undirmeðvitundinni sem truflar. Það kemur ákveðið spennufall og þá er erfitt að ná toppframmistöðu í næsta leik á eftir. Tímasetningin var því ekki slæm fyrir okkur. Hugsanlega útskýrir þetta þann mikla mun sem var á liðunum en maður veit aldrei. Við hefðum getað unnið þá hér hvenær svo sem leikurinn hefði verið spilaður.“

Þið voruð komnir með sex villur eftir þrjá leikhluta. Samt voruð þið að spila fáránlega öfluga vörn og halda þeim í 48 stigum. Hver var galdurinn?

„Það eina sem við lögðum sérstaklega upp með var að hleypa þeim ekki að körfunni. Ég fylgdist vel með þeim í bikarleikjunum og þetta varð niðurstaðan. Við ætluðum fekar að leyfa þeim að skjóta og þá hugsanlega myndu þeir vinna okkur með því að hitta vel. Þessi leikur var bara þannig að það var lítið brotið og lítið dæmt. En aðalatriðið var að þeir fengju engin sniðskot undir körfunni.“

Hvernig fannst þér stemningin í húsinu?

„Hún var mjög góð. Ég tala nú ekki um eftir að Þróstur Léó setti niður þristana sína í byrjun lokaleikhlutans. Þröstur Leó er bara þannig karakter að hann kemur stúkunni í gang þegar hann fagnar með tilþrifum hverri körfu sem hann skorar. Það er ómetanlegt að hafa svona kall í liðinu. Hann er mjög góður fyrirliði, einn sá besti sem ég hef haft á ferlinum“ sagði Benedikt að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert