Martin í úrvalsliðinu í Frakklandi

Martin Hermannsson í leik með Charleville.
Martin Hermannsson í leik með Charleville. Ljósmynd/David Henrot

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, hefur verið valinn í úrvalslið fyrri hluta frönsku B-deildarinnar eftir frammistöðu sína með Charleville.

Það er franska vefsíðan BeBasket sem stendur að valinu og þar á bæ er Martin greinilega í hávegum hafður. Lið hans er í þriðja sæti og hefur Martin verið einn besti maður liðsins á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku.

„Hann skorar mikið og leggur einnig upp mikið fyrir liðsfélaga sína. Þessi 22 ára gamli leikmaður ætti ekki að vera lengi í B-deildinni, miðað við frammistöðu hans á tímabilinu. Liðið hefur verið í toppbaráttu frá því í byrjun tímabils og þeirra lykilmaður á stóran þátt í því,“ segir í umsögninni um Martin.

Martin er næststigahæstur allra í deildinni með 17,9 stig að meðaltali í leik og er í 5. sæti yfir þá sem gefa flestar stoðsendingar, eða 5,9 slíkar í leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert