Sú besta rekin frá Njarðvík

Carmen Tyson-Thomas.
Carmen Tyson-Thomas. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur tilkynnti í kvöld að félagið hefði rift samningi sínum við Carmen Tyson-Thomas, sem farið hefur á kostum með kvennaliði félagsins í vetur.

Tyson-Thomas er stigahæst allra leikmanna Dominos-deildarinnar í vetur, en hún hefur skorað 37 stig að meðtaltali í leik. Þá hefur hún tekið 16,5 fráköst að meðaltali. Í tilkynningu frá Njarðvík segir að samskiptaörðugleikum sé um að kenna.

Njarðvík siglir lygnan sjó í deildinni þegar þrjár umferðir eru eftir, á hvorki möguleika á úrslitakeppni né er í hættu á falli.

Tilkynningu Njarðvíkur má sjá í heild hér að neðan.

Körfuknattleiksdeild UMFN hefur sagt upp samningi sínum við Carmen Tyson-Thomas leikmann kvennaliðs félagsins. Carmen hefur þar með leikið sinn síðasta leik þó enn séu þrír leikir eftir í deildarkeppni Domino´s-deildar kvenna.

Ástæða uppsagnarinnar eru samskiptaörðugleikar án þess að tíunda hvað í þeim felst. Við það ástand var ekki unað og því mat körfuknattleiksdeildar UMFN að enda samstarfið.

Óumdeilt er að hæfileikar Carmen Tyson-Thomas eru gríðarlegir á körfuboltavellinum og er henni þakkað sitt veglega framlag til félagsins og óskar körfuknattleiksdeildin henni velfarnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert