Golden State náði yfirhöndinni

Kevin Durant stekkur upp að körfu Portland í kvöld en …
Kevin Durant stekkur upp að körfu Portland í kvöld en Noah Vonleh er til varnar. AFP

Golden State Warriors náði yfirhöndinni í einvígi sínu við Portland Trail Blazers með sigri í fyrstu viðureign liðanna í átta liða úrslitum NBA-deildarinnar í körfuknattleik í kvöld. Lokatölur urðu 121:109 fyrir Golden State.

Golden State stóð uppi sem sigurvegari í vesturdeildinni, en átti fullt í fangi með Portland sem náði síðasta sætinu inn í úrslitakeppnina. Staðan var jöfn fyrir fjórða leikhluta, 88:88, en þar sýndu Warriors styrk sinn og unnu að lokum 121:109.

Kevin Durant var stigahæstur hjá Golden State og skoraði 32 stig, en það var hins vegar Draymond Green sem stal senunni. Hann var nálægt því að ná þrefaldri tvennu, skoraði 19 stig, tók 12 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Hjá Portland voru þeir CJ McCollum og Damien Lillard í sérflokki með 41 og 34 stig.

Washington Wizards eru svo komnir í 1:0 í einvígi sínu við Atlanta Hawks eftir sjö stiga sigur, 114:107, í fyrsta leik liðanna í dag.

John Wall fór fyrir Washington í leiknum en hann skoraði 32 stig og gaf 14 stoðsendingar í leiknum. Alls átti hann þátt í 62 af 114 stigum liðsins í leiknum. Hjá Atlanta var Dennis Schoder stigahæstur með 25 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert