Tilbúnir í slagsmál á föstudagskvöld

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR.
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Þetta var virkilega góð frammistaða hjá mínum mönnum,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, í samtali við mbl.is eftir 98:65-sigur gegn Grindavík í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik í Vesturbænum í kvöld.

Grindvíkingar hófu leikinn betur og voru þremur stigum yfir að loknum fyrsta leikhluta. KR-ingar spýttu í lófana í öðrum leikhluta og litu aldrei um öxl eftir það.

„Það er langt síðan bæði lið spiluðu og leikurinn í byrjun bar þess merki. Ég fann það, sérstaklega í seinni hálfleik, þegar Brynjar stígur upp og setur stór skot og við fáum stig úr mörgum áttum þá erum við erfiðir,“ sagði Finnur.

KR-ingar fengu framlag frá mörgum mönnum í kvöld en Philip Alawoya var þeirra stigahæstur með 22 stig. 

Treystum hver öðrum

„Það er nú yfirleitt þannig í vörn að þu getur ekki stoppað allt. Eitthvað opnast þegar annað lokast og þá þurfa menn að sýna óeigingirni og finna lausnir. Mér fannst strákarnir gera virkilega vel í dag að þvinga ekki of mikið heldur treysta hver öðrum og láta leikinn koma til sín. Þegar við gerum það þá erum við góðir.

Finnur býst við Grindvíkingum sterkum í öðrum leik liðanna sem verður leikinn í Grindavík á föstudagskvöld. „Grindvíkingar verða miklu, miklu, miklu betri en þeir sýndu í dag. Við erum einbeittir og það skiptir ekki máli hvort við vinnum með einu stigi eða 30. Aðalatriðið er að koma inn og vinna leikina. Þetta er leikur sem við áttum að vinna og nú færist serían yfir til Grindavíkur og pressan er á þeim að halda heimavellinum lifandi. Við verðum að vera tilbúnir í slagsmál og læti á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert