Boston og Oklahoma eru á lífi

Stjörnurnar Russell Westbrook í liði Oklahoma og James Harden hjá …
Stjörnurnar Russell Westbrook í liði Oklahoma og James Harden hjá Houston eigast við í nótt. AFP

Boston Celtics og Oklahoma City Thunder eru komin á blað í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik eftir að hafa unnið gríðarlega mikilvæga sigra í einvígjum sínum í nótt.

Celtics voru nokkuð óvænt 2:0-undir í einvíginu við Chicago Bulls, en í nótt snerist taflið við og Boston hrósaði sigri 104:87. Al Horford var stigahæstur hjá Celtics með 18 stig eins og Dwayne Wade hjá Bulls. Chicago Bulls er því 2:1 yfir í einvíginu.

Russell Westbrook sá svo til þess að Oklahoma hleypti spennu í einvígið við Houston Rockets. Westbrook skellti í þrefalda tvennu þegar hann skoraði 32 stig, tók 13 fráköst og gaf 11 stoðsendingar en sigur Oklahoma var með tæpasta móti, 115:113. James Harden skoraði 44 stig fyrir Houston sem er 2:1 yfir í einvíginu.

Los Angeles Clippers vann svo annan leikinn í röð í einvíginu við Utah Jazz, 111:106. Chris Paul skoraði 34 stig fyrir Clippers, sem lenti 1:0 undir í einvíginu en er nú 2:1 yfir. Gordon Hayward skoraði 40 stig fyrir Utah.

Fjóra sigurleiki þarf til þess að útkljá einvígin, en hér má sjá úrslitin í nótt:

Austurdeild:
Chicago Bulls – Boston Celtis 87:104

Vesturdeild:
Houston Rockets – Oklahoma City Thunder 113:115
Utah Jazz – Los Angeles Clippers 106:111

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert