Grófum okkur allt of djúpa holu

Brynjar Þór Björnsson skoraði 17 stig fyrir KR gegn Grindavík …
Brynjar Þór Björnsson skoraði 17 stig fyrir KR gegn Grindavík í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum langt frá okkar besta og enginn leikmaður sem lék á eðlilegri getu að mínu mati. Það vantaði alla orku í varnarleikinn og þeir áttu allt of auðvelt með að komast að körfunni okkar og skorað auðveldar körfur,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, í samtali við mbl.is eftir tap liðsins gegn Grindavík í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í körfubolta karla í kvöld.

„Þeir tóku frumkvæðið strax í upphafi leiksins og keyrðu auðeldlega að körfunni trekk i trekk. Við gerðum ágætlega í að koma til baka í erfiðri stöðu, en holan var orðin of djúp og smávægileg mistök hér og þar urðu til þess að við náðum ekki að fullkomna endurkomuna,“ sagði Finnur Freyr um leik sinna manna.

Staðan í einvígi liðanna er 2:1 fyrir KR sem fær annað tækifæri til þess að tryggja sér fjórða Íslandsmeistaratitilinn undir stjórn Finns Freys Stefánssonar og þann 16. alls í sögu félagsins í næsta leik sem háður verður í Grindavík á fimmtudaginn kemur.

„Annað liðið kom einfaldlega sterkara til leiks í þessum leik og við verðum að gera mun betur í næsta leik í Grindavík á fimmtudaginn kemur ef við ætlum að fara með sigur af hólmi. Við verðum að mæta með betri baráttuvilja og svo er ég með þó nokkur taktísk atriði í kollinum sem við getum gert betur og við munum fara yfir það fram að næsta leik,“ sagði Finnur Freyr um framhaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert