Fjórði Íslandsmeistaratitill KR í röð

Kristófer Acox í baráttu gegn Grindavík í kvöld.
Kristófer Acox í baráttu gegn Grindavík í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

KR tryggði sér sinn fjórða Íslandsmeistaratitil í röð í körfuknattleik karla með því að vinna Grindavík í oddaleik í Vesturbænum í dag, 95:56. Gestirnir úr Grindavík náðu sér engan vegin á strik í kvöld. Þeir komust í 10:6 í fyrsta leikhluta, en eftir það sáu þeir ekki til sólar.

KR-ingar skoruðu 13 síðustu stig 1. leikhlutans og var staðan að honum loknum, 19:10. Lið KR valtaði hreinlega yfir slaka Grindvíkinga í 2. leikhluta, 30:8 og var staðan því 39:18 KR-ingum í vil í hálfleik. Grindavík náði aldrei að ógna því forskoti, þrátt fyrir betri frammistöðu í seinni hálfleik.

Staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann var 68:40 og voru síðustu tíu mínúturnar einfaldlega formsatriði fyrir besta lið landsins sem sigldi þægilegum sigri í hús.

KR-ingar voru grimmari í fráköstum í allt kvöld, ásamt því að reynsla þeirra úr leikjum sem þessum hjálpaði. Lykilmenn Grindavíkur voru langt frá sínu besta á meðan fjölmargir KR-ingar lögðu lóð sitt á vogarskálarnar. Lewis Clinch er búinn að vera besti leikmaður Grindavíkur í vetur, en hann átti líklegast sinn versta leik á tímabilinu. Hann skoraði aðeins sex stig og komu þau öll í seinni hálfleik. Dagur Kár Jónsson var besti maður Grindavíkur með 15 stig. 

Hjá KR skoraði Brynjar Þór Björnsson 23 stig, Kristófer Acox var með 14 og Sigurður Þorvaldsson bætti við 11 stigum, en alls skoruðu sjö KR-ingar átta stig eða meira í leiknum.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is.

KR 93:56 Grindavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert