Haukur ekki meira með Rouen?

Haukur Helgi Pálsson í landsleik.
Haukur Helgi Pálsson í landsleik. mbl.is/Árni Sæberg

Hætta er á að Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, missi af lokasprettinum í frönsku B-deildinni með liði sínu Rouen vegna meiðsla. Þetta staðfestir hann við karfan.is í kvöld.

Þar kemur fram að Haukur hafi nefbrotnað fyrir skömmu, en síðan fengið slæmt höfuðhögg og mikinn hausverk í kjölfarið. Þá eigi hann eftir að fara í aðgerð á nefinu.

„Ég þarf að hvíla mig í einhverjar 2 til 3 vikur eftir það þannig að það er óvíst hvort ég nái síðasta leik, nema þá að liðið komist í úrslitakeppnina,“ segir Haukur við karfan.is.

Haukur er í lykilhlutverki hjá Rouen sem byrjaði tímabilið illa og var lengi vel við botn deildarinnar. Nú er liðið hins vegar komið með 15 sigra í 30 leikjum og er í 11. sæti af 18 liðum þegar fjórum umferðum er ólokið. Liðin í öðru til níunda sæti fara í umspil um sæti í efstu deild, Rouen er jafnt liðunum í 9. og 10. sæti að stigum og á því góða möguleika en eflaust setja meiðsli Hauks strik í reikninginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert