Martin tilnefndur sem leikmaður ársins

Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. Ljósmynd/David Henrot

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, er einn fimm leikmanna sem tilnefndir eru sem mikilvægasti leikmaður ársins í frönsku B-deildinni. Martin hefur átt magnað tímabil með liði Charleville og er stigahæstur allra leikmanna deildarinnar.

Auk Martins er Íslandsvinurinn Aaron Broussard meðal þeirra tilnefndu, en Broussard varð Íslandsmeistari með Grindavík árið 2013. Zachery Peacock úr Bourg-en-Bresse, Joe Burton úr Roanne og Jean-Victor Traore úr Lille eru einnig tilnefndir.

Tilkynnt verður á lokahófi í París á miðvikudaginn eftir viku hver hlýtur nafnbótina mikilvægasti leikmaður deildarinnar, en á sama hófi verða veitt verðlaun til þeirra sem skarað hafa fram úr í frönsku A-deildinni.

Martin og félagar unnu góðan sigur á Broussard og félögum í Fos-sur-Mer í gærkvöld, 81:72. Martin lét að venju nokkuð til sín taka, en hann skoraði 13 stig, tók 3 fráköst og átti 5 stoðsendingar.

Þar með er Charleville öruggt um sæti í 8 liða úrslitakeppni deildarinnar nú þegar tvær umferðir eru eftir. Bourg-en-Bresse hefur tryggt sér sigur í deildinni og þar með sæti í A-deildinni á næstu leiktíð, en liðin í 1.-8. sæti leika svo í úrslitakeppni deildarinnar þar sem sigurvegarinn kemst einnig upp (eða liðið í 2. sæti ef Bourg-en-Bresse vinnur). Fos-sur-Mer þarf að vinna annan leikja sinna til að tryggja sér 2. sæti deildarinnar þrátt fyrir tapið í gær, en Charleville er í 3. sæti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert