Tryggvi kemur aftur inn í landsliðið

Tryggvi Snær Hlinason.
Tryggvi Snær Hlinason. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður í körfuknattleik og leikmaður Valencia á Spáni, verður klár í slaginn með íslenska landsliðinu sem mætir Búlgaríu í undankeppni HM í Laugardalshöll á mánudag. Hann verður ekki með gegn Tékkum í dag.

Tryggvi fékk ekki leyfi hjá Valencia til þess að taka þátt í öllu verkefninu með landsliðinu, en hann var með spænska liðinu í Þýskalandi í gær í Evrópudeildinni án þess þó að fá að spila. Tryggvi mun ferðast til Íslands í dag og verða til taks á mánudag, en Ísland mætir Tékkum ytra í dag.

„KKÍ hefur verið í talsverðum samskiptum við forsvarsmenn Valencia undanfarnar vikur og um miðja vikuna náðist samkomulag um að Tryggvi fengi að koma heim. KKÍ harmar þær deilur sem eru á milli FIBA og EuroLeague og það er sérstaklega svekkjandi að EuroLeague hafi ekki staðið við þann samning sem gerður var fyrir um ári um að leikir færu ekki fram í EuroLeague á meðan landsleikjaglugginn er í gangi hjá FIBA,“ segir í tilkynningu frá KKÍ.

Þá mun Brynjar Þór Björnsson, leikmaður KR, einnig vera klár í slaginn á mánudag en hann fór ekki til Tékklands vegna veikinda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert