Greiddu jafn mikið fyrir einkaflug og KKÍ fær á einu ári frá ÍSÍ

Kristófer Acox í baráttu við Tornike Shengelia í gær.
Kristófer Acox í baráttu við Tornike Shengelia í gær. Ljósmynd/FIBA

Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, segir það nauðsynlegt að auka fjármagn í afrekssjóð ÍSÍ svo hinum ýmsu sérsamböndum sé unnt að halda úti afreksstarfi í íþróttum.

„Við þurfum að fá meira fjármagn í afrekssjóðinn hjá ÍSÍ. Hvort sem það heitir körfubolti eða aðrar íþróttagreinar, þá þurfum við fjármagn til þess að fjármagna afreksstarfið okkar í sambandinu því það er dýrt að taka þátt í undankeppnum.

Ef við tökum lítið dæmi varðandi flest löndin í kringum okkur þá eru þau í leiguflugum fram og til baka í öllum sínum ferðum til þess að hafa ferðatímann sem stystan.

Það er langur vegur frá því að KKÍ gæti gert það fyrir sína leikmenn. Við ferðumst bara með okkar öfluga samstarfsaðila, Icelandair, og svo öðrum flugfélögum í Evrópu,“ sagði Hannes í samtali við mbl.is.

Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður KKÍ.
Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður KKÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er allt í lagi. Við erum ekki að biðja um leiguflugvélar, við erum að biðja um pening til að standa undir afreksstarfinu. Við erum alveg tilbúin til þess að halda áfram að taka sömu flug en sjáið bara stóra heildarmuninn.

Ég held að þetta sé eitthvað sem almenningur heima átti sig ekki á, að allt þetta er greitt af ríkisvaldi viðkomandi landa,“ hélt hann áfram og tók svo athyglisvert dæmi af lykilmanni Georgíu.

Ísland vann Georgíu, 80:77, í undankeppni HM 2023 í Georgíu í gær og missti þar af sæti á heimsmeistaramóti með allra minnsta mun.

Einkaflug greitt fyrir Shengelia

„Ef við tökum eitt dæmi af Georgíu, þeir voru með sinn besta leikmann, [Tornike] Shengelia, sem þeir lögðu mikið traust á í leiknum. Georgíska sambandið greiddi fyrir hann einkaflug til þess að fljúga honum á milli leikjanna því hann þurfti að taka líka þátt í leik í EuroLeague með félagsliði sínu í síðustu viku.

Georgíska sambandið setti jafn mikinn pening í að sjá til þess að þessi leikmaður væri með þeim og við erum að fá úr afrekssjóði ÍSÍ á þessu ári, fyrir allt afreksstarf í íslenskum körfubolta á einu ári. Þarna kristallast aðstöðumunurinn.

Við erum ekki að biðja um peninga til þess að fara í einhverjar leiguvélar, við erum að biðja um peninga til þess að afreksstarfið geti staðið undir sér, því það er staðreynd að íslenskt afreksíþróttafólk leggur mjög mikið á sig og er mikil landkynning fyrir land og þjóð.

Þess vegna þurfum við meira fjármagn í afrekssjóð og ÍSÍ þarf að breyta sínu regluverki þannig að íslensku körfuboltalandsliðin geti haldið ótrauð áfram í að skrifa íþróttasöguna,“ sagði Hannes að lokum í samtali við mbl.is.

Nánar er rætt við Hannes á íþróttasíðum Morgunblaðsins á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert