Jókerinn og Edwards illviðráðanlegir

Nikola Jokic í leiknum í nótt.
Nikola Jokic í leiknum í nótt. AFP/David Berding

Serbinn Nikola Jokic og Anthony Edwards léku frábærlega fyrir lið sín þegar Denver Nuggets vann nauman sigur á Minnesota Timberwolves, 115:112, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Jókerinn var stigahæstur í leiknum með 35 stig og 16 fráköst fyrir Denver.

Edwards skoraði 30 stig fyrir Minnesota auk þess sem hann tók átta fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Hjá Denver bætti Michael Porter Jr. við 26 stigum og Jaden McDaniels gerði slíkt hið sama hjá Minnesota, auk þess sem McDaniels tók sex fráköst.

Mögnuð skotnýting Thompsons

Dallas Mavericks lagði San Antonio Spurs að velli, 113:107.

Kyrie Irving fór fyrir Dallas er hann skoraði 28 stig og tók sjö fráköst. Slóveninn Luka Doncic var þá með þrefalda tvennu er hann skoraði 18 stig, tók tíu fráköst og gaf 16 stoðsendingar.

Houston Rockets lagði Washington Wizards örugglega að velli, 137:114, þar sem Jalen Green fór á kostum.

Green skoraði 42 stig og tók tíu fráköst. Amen Thompsons bætti við 25 stigum og tíu fráköstum.

Nýting Thompsons var stórbrotin þar sem hann skoraði tíu af tólf skotum sínum utan af velli og fimm af sjö vítaskotum. Skotnýting hans var því 79 prósent.

Úrslit næturinnar:

Minnesota – Denver 112:115

San Antonio – Dallas 107:113

Washington – Houston 114:137

Brooklyn – New Orleans 91:104

Orlando – Charlotte 112:92

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert