Öll bestu vínin mín eru eldri en hann

Gregg Popovich og Victor Wembanyama.
Gregg Popovich og Victor Wembanyama. AFP/Ronald Cortes

Gregg Popovich, þjálfari San Antonio Spurs í NBA-deildinni í körfuknattleik, sló á létta strengi þegar hann ræddi um franska ungstirnið Victor Wembanyama.

Wembanyama er aðeins tvítugur, fæddur árið 2004, en er þegar farinn að láta vel að sér kveða í sterkustu deild heims og þykir eitt mesta efni sem komið hefur fram í nokkurn tíma.

Þá verð ég spenntur

Popovich er 75 ára gamall og hefur lifað tímana tvenna í körfuboltanum. Eitt helsta áhugamál hans utan vallar eru vín.

„Ég verð einungis spenntur þegar ég fæ gamalt Bordeaux-vín sem ég hafði áhyggjur af að væri orðið vont en kemst að því að það sé fullkomið.

Þá verð ég spenntur. Öll bestu vínin mín eru eldri en Victor. Það er sönn fullyrðing,“ sagði Popovich  á fréttamannafundi eftir sigur San Antonio á Brooklyn Nets aðfaranótt mánudags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert