Sannfærandi Keflvíkingar í úrslit

Keflvíkingar fagna í leikslok.
Keflvíkingar fagna í leikslok. mbl.is/Árni Sæberg

Keflavík er komin í úrslitaleik bikarkeppni kvenna í körfubolta eftir sigur á nágrönnum sínum í Njarðvík, 86:72, í fyrri undanúrslitaleik dagsins í Laugardalshöll.

Keflavík leikur því annað hvort gegn Grindavík eða Þór Akureyri.

Keflavík setti tóninn strax í fyrsta leikhluta

Leikurinn fór rólega af stað en Keflavík var með undirtökin allan fyrsta leikhlutann. Eftir rúmlega fjórar mínútur var staðan 9:8 fyrir Keflavík en þá skildu leiðir og eftir rúmar sjö mínútur var munurinn orðinn átta stig í stöðunni 18:10 fyrir Keflavík.

Njarðvíkurkonur gerðu mikið af klaufalegum mistökum með skrýtnum sendingum og ótímabærum skotum. Einnig fóru Njarðvíkurkonur illa með vítaskotin sín.

Staðan eftir fyrsta leikhluta var 24:14 fyrir Keflavík og mikill gæðamunur á liðunum sem hefði auðveldlega getað sést betur með meiri stigamun.

Gæðamunurinn kom í ljós í öðrum leikhluta

Það átti líka eftir að sjást í öðrum leikhluta. Keflavík setti niður fyrstu sex stig leikhlutans og komust í 30:14 og 33:16. Þá bitu Njarðvíkurkonur aðeins frá sér og náðu að minnka muninn í 40:30 og 44:34. Keflvíkingar settu síðan aftur í næsta gír síðustu mínútu leikhlutans og keyrðu hratt á Njarðvík og gengu til hálfleiks með 15 stiga forskot í stöðunni 51:36.

Stigahæstar í liði Keflavíkur í fyrri hálfleik voru þær Birna Valgerður Benonýsdóttir og Sara Rún Hinriksdóttir, báðar með 11 stig. Í liði Njarðvíkur var Selena Lott lang atvkæðamest í fyrri hálfleik með 19 af 36 stigum liðsins.

Emile Hesseldal, danska landsliðskonan hjá Njarðvík og einn besti leikmaður liðsins, lék ekkert með í seinni hálfleik vegna höfuðhöggs sem hún fékk í fyrri hálfleiknum og munaði um minna fyrir Njarðvíkinga. 

Keflavík vann leikinn í þriðja leikhluta

Njarðvíkurkonur mættur ferskar í þriðja leikhluta og náðu að minnka muninn niður í sex stig í stöðunni 53:47 en þá tók Keflavík leikhlé og kom svo inn í leikhlutan af fullum krafti og í rauninni keyrði yfir Njarðvík. Þegar þriðja leikhluta var lokið var staðan 71:52, 19 stiga munur Keflavík í vil. Það má því segja að Keflavík hafi unnið þennan leik í þriðja leikhluta.

Innsigluðu sigurinn

Það má segja að Keflvíkingar hafi innsiglað sigurinn með því að setja niður fyrstu tvö stig fjórða leikhluta og auka muninn í 21 stig í stöðunni 73:52. Keflavík vann að lokum sannfærandi sigur á grönnum sínum í Njarðvík 86:72 og er komin í bikarúrslit, eins og karlaliðið.

Það verður því sannkölluð veisla fyrir stuðningsmenn Keflavíkur á laugardag.

Stigahæstar í liði Keflavíkur voru þær Birna og Daniela Wallen báðar með 17 stig. Í liði Njarðvíkur var Selena með 29 stig.  

Thelma Ágústsdóttir úr Keflavík með boltann í kvöld. Krista Gló …
Thelma Ágústsdóttir úr Keflavík með boltann í kvöld. Krista Gló Magnúsdóttir verst henni. mbl.is/Árni Sæberg
Keflavík 86:72 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert