Það verða jakkaföt á laugardaginn

Lore Devos sækir að Söruh Mortensen í kvöld.
Lore Devos sækir að Söruh Mortensen í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Daníel Andri Halldórsson þjálfari Þórs frá Akureyri var vægast sagt stoltur af sínu liði eftir að hafa tryggt sér farseðilinn í bikarúrslitaleikinn í körfubolta kvenna á laugardaginn eftir 97:95-sigur á Grindavík í kvöld. Fyrirfram bjuggust fleiri við sigri Grindavíkur.  

„Við náðum fram bestu útgáfunni af okkur sjálfum í dag. Það er eiginlega ekkert annað um þennan leik að segja. Grindavík fékk ekki þessa útgáfu af okkur í deildinni en það breyttist í kvöld," svaraði hann í samtali við mbl.is, spurður út í frammistöðu liðsins í kvöld.

Næsti leikur er þá auðvitað Keflavík á laugardaginn. Eiga Þórsarar möguleika gegn deildarmeisturunum?

„Við verðum bara að berjast eins og ljón og við þurfum að vera fyrstar í gólfið og þurfum að láta finna vel fyrir okkur á öllum sviðum.

Keflavík er klárlega besta lið deildarinnar og það geta allar fimm skorað hjá þeim inni á vellinum þannig að það verður áskorun að verjast því. Við verðum bara að keyra þetta áfram á sömu geðveiki og í kvöld."

Þú mætir til leiks í þessari fallegu grænu peysu. Er einhver sérstök ástæða fyrir því?

„Ég ákvað að vera ekki í Þórslitunum og það verða jakkaföt á laugardaginn. Við pökkuðum fyrir langa dvöl í bænum og pöntuðum okkur hótel fram yfir úrslitaleik þannig að ég auglýsi eftir einhverju góðu liði sem vill leyfa okkur að taka æfingu hjá sér í hádeginu," sagði Daníel Andri að lokum í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert