Þór tryggði sér úrslitaleik við Keflavík

Lore Devos úr Þór og Sarah Mortensen hjá Grindavík eigast …
Lore Devos úr Þór og Sarah Mortensen hjá Grindavík eigast við í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Þór frá Akureyri er kominn í úrslitaleik bikarkeppni kvenna í körfubolta eftir 79:75 sigur á Grindavík í síðari undanúrslitaleik kvöldsins í Laugardalshöll. Þór leikur því gegn Keflavík um bikarmeistaratitil kvenna á laugardaginn.

Jafnræði í fyrsta leikhluta

Bæði lið skoruðu þrjú stig í sínum fyrstu sóknum í leiknum og var leikurinn hnífjafn í fyrsta leikhluta. Liðin skiptust á að jafna eða komast yfir og var staðan eftir sjö mínútur 21:21. Grindavík komst yfir í stöðunni 24:23 en Þór náði síðan forystunni aftur í stöðunni 25:24. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 28:25 fyrir Grindavík.

Algjör viðsnúningur í öðrum leikhluta

Grindavík byrjaði annan leikhluta á þriggja stiga körfu frá Söruh Mortensen og staðan 31:25 fyrir Grindavík. Þá hófst stórkostlegur kafli hjá Þór þar sem liðið skoraði 17 stig í röð og breytti stöðunni í 42:31 sér í vil. Grindvíkingum tókst að minnka muninn niður í níu stig en Þór jók muninn aftur í 11 stig fyrir hálfleik. Staðan í hálfleik 48:37 fyrir Þór.

Hulda Ósk Bergsteinsdóttir með boltann í kvöld.
Hulda Ósk Bergsteinsdóttir með boltann í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Stigahæstar í liði Þórs í fyrri hálfleik voru Madison Sutton með 15 stig og Lore Devos með 14 stig. Í liði Grindavíkur var Sarah Mortensen með 15 stig og Danielle Rodriguez með 13 stig.

Grindavík gerði áhlaup í þriðja leikhluta

Grindavíkurkonur spiluðu vel í þriðja leikhluta. Þær söxuðu hægt og bítandi á forskot Þórs og minnkuðu muninn mest í fjögur stig, 55:51. Þórsurum tókst þó að auka muninn aftur og eftir þriðja leikhluta var staðan 64:58, sex stiga munur fyrir fjórða leikhluta.

Forskotið í öðrum leikhluta lagði grunninn

Þórsarar komu sterkir inn í fjórða leikhlutann og náðu að auka muninn í 11 stig í upphafi leikhlutans. Það breytti því þó ekki að Grindavík tókst að minnka muninn niður í 5 stig í stöðunni 69:64 og mikil spenna fyrir síðustu sex mínútur leiksins.

Þórsarar gáfu þá allt í botn og juku muninn aftur í 10 stig í stöðunni 74:64. Grindvíkingar reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn og jafna en orkan virtist búin í liðinu.

Mátti sjá þreytumerki á liði Grindavíkur enda tekur það mikla orku að elta í svona leik. Það má því segja að grunnurinn að sigri Þórs hafi verið lagður með frábærum kafla í öðrum leikhluta þegar liðið náði 11 stiga forskoti eftir að hafa verið þremur stigum undir.

Svo fór að Þór Akureyri vann leikinn 79:75

Stigahæst í liði Þórs Akureyrar var Lore Devos með 30 stig en í liði Grindavíkur var Danielle Rodriquez með 27 stig.

Það eru því Keflavík og Þór Akureyri sem spila til úrslita um bikarmeistaratitilinn á laugardag.

Þór Ak. 79:75 Grindavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert