Var mjög erfiður leikur

Það var hart barist í Laugardalshöll í kvöld.
Það var hart barist í Laugardalshöll í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Keflavíkur var stoltur af sínum leikmönnum sem eru komnir í úrslitaleik bikarkeppni kvenna í körfubolta á laugardaginn eftir 86:72-sigur á grönnum sínum í Njarðvík í Laugardalshöll í kvöld.

Spurður út í hvort þetta hafi verið þægilegur sigur sagði Sverrir þetta:

„Við náðum fljótt stjórn á leiknum og þó munurinn hafi verið talsverður þá var þetta samt mjög erfiður leikur og ég er mjög ánægður með hvernig við spiluðum þennan leik,“ sagði hann við mbl.is.

Eitthvað sem kom þér á óvart í leik Njarðvíkur?

„Nei svo sem ekki. Þetta er hörkulið, fullt af góðum leikmönnum og þó að Selena sé óstöðvandi þá eru margar aðrar mjög góðar í þeirra liði og við þurftum að hafa okkur öll við til að ná fram þessum sigri."

Í þriðja leikhluta nær Njarðvík að minnka muninn niður í sex stig og þetta er orðinn leikur. Þú tekur leikhlé sem virtist skila sér. Hvað fór fram í þessu leikhléi?

„Það sem fór fram var í rauninni bara það að við vorum að spila of hægt, kærulaus með sendingar, sein að hlaupa aftur og duttum niður á plan sem við viljum ekki vera á. Við töluðum um að leggja harðar að okkur og vera einbeittari. Það gekk upp sem er frábært."

Ertu með ósk um mótherja á laugardag?

„Fyrirfram búast allir við að Grindavík vinni því að þær hafa unnið Þór hingað til. Við hinsvegar töpuðum fyrir Þór í vetur þannig að þær geta verið mjög hættulegar.

Ég er samt ekki með neinar óskir um mótherja. Við erum bara ánægð með að vera búin að ná því markmiði að komast í þennan úrslitaleik." sagði Sverrir Þór að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert