Litháinn langi með enn eina þrennuna

Malik Monk og Domantas Sabonis í leiknum í nótt.
Malik Monk og Domantas Sabonis í leiknum í nótt. AFP/Mark Blinch

Domantas Sabonis, Litháinn hávaxni í liði Sacramento Kings, heldur áfram að leika vel fyrir liðið í NBA-deildinni í körfuknattleik.

Í nótt var hann með þrefalda tvennu í öruggum 123:89-sigri Sacramento á Toronto Raptors.

Er Sabonis sá leikmaður í NBA-deildinni sem er með flestar slíkar á yfirstandandi tímabili, 24 þrennur í 68 leikjum.

Sabonis, sem leikur í stöðu kraftframherja, skoraði 13 stig, tók 17 fráköst og gaf tíu stoðsendingar í nótt.

21 árs fór á kostum

Miami vann nauman sigur á Cleveland Cavaliers, 107:104, þar sem Jimmy Butler fór fyrir Miami.

Butler skoraði 30 stig, gaf fimm stoðsendingar og stal boltanum fjórum sinnum.

Í liði Cleveland var Jarrett Allen með tröllatvennu þegar hann skoraði 25 stig og tók 20 fráköst.

Chet Holmgren átti stórleik í liði Oklahoma City Thunder þegar liðið lagði Utah Jazz að velli, 119:107.

Holmgren, sem er 21 árs, skoraði 35 stig, tók 14 fráköst, stal boltanum tvisvar og varði þrjú skot.

Shai Gilgeous-Alexander bætti við 31 stigi og sjö stoðsendingum.

Úrslit næturinnar:

Toronto – Sacramento 89:123

Cleveland – Miami 104:107

Oklahoma – Utah 119:107

Detroit – Indiana 103:122

Boston – Milwaukee 122:119

Golden State – Memphis 137:116

Phoenix – Philadelphia 115:102

Portland – LA Clippers 103:116

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert