Gamla hraðlestin vöknuð

Keflvíkingar fagna.
Keflvíkingar fagna. mbl.is/Óttar Geirsson

Pétur Ingvarsson þjálfari Keflavíkur var ánægður með að vera búinn að ná öðru af tveimur markmiðum Keflavíkur á þessu tímabili þegar liðið varð bikarmeistari í dag eftir sigur á Tindastóli, 92:79, í Laugardalshöllinni.

Spurður að því hvort þetta hafi ekki akkúrat verið ástæðan fyrir því að hann tók við Keflavík og hvort gamall risi væri vaknaður af værum blundi sagði Pétur:

„Jú að sjálfsögðu er þetta ástæðan fyrir því að ég tók við Keflavík og nú er gamla hraðlestin vöknuð. Við stefndum á tvo hluti áður en þessi leikur hófst. Nú stefnum við bara á einn hlut." Þarna á Pétur væntanlega við Íslandsmeistaratitilinn.

Pétur Ingvarsson á hliðarlínunni í dag.
Pétur Ingvarsson á hliðarlínunni í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Reiknaði með öllu

„Planið var að spila hratt á þá og sprengja þá í lokin. Það tókst. Það sem kom okkur á óvart var kannski að þeir hittu mun betur en við gerðum ráð fyrir í fyrri hálfleik. Ég reiknaði alveg með öllu sem þeir gerðu og þegar þeir þreytast þá fara þeir að klikka."

Þannig að þú myndir segja að plan Keflavíkur hafi gengið að öllu leyti upp?

„Já, við hittum ágætlega og nokkurn veginn eins og planið var sett upp. Ekki það að ég sé svona klár heldur er það bara þannig að við keyrum á fullu og reynum að þreyta andstæðinginn og þeir féllu svolítið í þá gildru í dag," bætti Pétur við.

Þeir lentu í villuvandræðum strax í þriðja leikhluta. Er það eitthvað sem þú gast notfært þér?

„Þeir eru með 8 eða 9 ofboðslega góða leikmenn og þegar einn fer útaf hjá þeim þá kemur annar betri hugsanlega bara inn á þannig að það gæti bara verið verra. Þannig að það var ekkert sem við vorum að spá í."

Núna tekur deildin aftur við og næsta markmið. Hvernig verður að undirbúa liðið fyrir það?

„Jú næsti leikur er bara á móti Njarðvík þannig að það gæti orðið snúið að koma liðinu niður á jörðina fyrir það," sagði Pétur glaður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert