Þórir gríðarlega svekktur

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson fylgist með Remy Martin taka skot.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson fylgist með Remy Martin taka skot. mbl.is/Óttar Geirsson

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson leikmaður Tindastóls var ansi svekktur í leikslok eftir að liðið hafði tapað í bikarúrslitaleiknum í körfubolta gegn Keflavík, 92:79, í Laugardalshöllinni í dag. 

„Við eigum fínan fyrri hálfleik og erum yfir Síðan náum við góðu forskoti í þriðja leikhluta. Síðan fara þeir að hitta betur og við hættum að ná góðum sóknum. Svo komast þeir yfir fyrir fjórða leikhluta. Heldur þetta bara áfram í fjórða leikhluta og þeir komast mikið á vítalínuna. Eftir að þeir komast aftur inn í leikinn þá eigum við bara engin svör,“ sagði Þórir um leikinn.

Það er samt svolítið eins og leikurinn í dag og leikurinn gegn Keflavík í Keflavík fyrr í vetur séu keimlíkir. Þið leiðið báða þessa leiki en síðan er eins og Tindastóll hafi ekki úthald í að klára leikina. Má segja að liðið hafi sprungið um miðjan þriðja leikhluta?

„Það er alveg rétt sem þú segir að það eru líkindi þarna en þetta er samt allt annar leikur. Við erum bara aðallega svekktir að hafa ekki getað fært öllu þessu frábæra fólki sem kom að horfa á okkur sigur hér í dag. Ég vil líka óska Keflavík til hamingju með frábæran sigur."

Það leit út fyrir að þið væruð orðnir ansi þreyttir í 4 leikhluta. Ég spyr því hvort lið Tindastóls hafi hreinlega sprungið í lokin?

„Ég vil ekki meina að við höfum sprungið en við náðum bara ekki að skora úr þeim kerfum sem við lögðum upp með í lok þriðja og svo fjórða leikhluta. Ég er bara gríðarlega svekktur með þetta," sagði Þórir að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert