Rosalega stolt af liðinu mínu

Anna Ingunn í leiknum í gær.
Anna Ingunn í leiknum í gær. mbl.is/Óttar Geirsson

Körfuboltakonan Anna Ingunn Svansdóttir, fyrirliði Keflavíkur, var kampakát þegar hún ræddi við mbl.is í gærkvöldi, enda nýorðin bikarmeistari eftir 89:67-sigur á Þór frá Akureyri í Laugardalshöllinni.

„Mér líður ógeðslega vel. Ég er rosalega stolt af liðinu mínu og hvernig við komum inn í leikinn. Þetta var magnað. Mér leið vel allan tímann, en Þórsliðið er virkilega gott. Þær gerðu margt vel í kvöld en við gerðum betur og tókum þennan leik,“ sagði Anna.

Fyrr um daginn varð karlaliðið bikarmeistari og fögnuðu liðin saman í leikslok. „Það var ógeðslega gaman. Þeir eru geggjaðir líka og það var ótrúlega gaman að taka tvöfalt. Þetta er geggjað!“ sagði Anna kát og hrósaði síðan stuðningsmönnum Keflavíkur.

„Það eru rosalega margir komnir að styðja við okkur og það er æðislegt að fá svona mikinn stuðning. Þessi læti eru geggjuð.“

Keflavík hefur aðeins tapað tveimur leikjum af 20 í deildinni á leiktíðinni, er deildarmeistari og nú bikarmeistari. Nú er aðeins Íslandsmeistaratitillinn eftir, til að fullkomna tímabilið.

„Við erum margar sem getum spilað, skorað og spilað vörn. Þetta er liðsheildin. Við ætlum okkur alla leið, það er alltaf markmiðið,“ sagði Anna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert