Skjölum stolið um Biles sem tók lyf við ADHD

Simone Biles sló í gegn á Ólympíuleikunum og vann til …
Simone Biles sló í gegn á Ólympíuleikunum og vann til fernra gullverðlauna í Ríó. AFP

Alþjóðalyfjaeftirlitið (WADA) hefur fordæmt aðgerðir rússneskra tölvuþrjóta sem láku í dag trúnaðarskjölum stofnunarinnar er snúa að bandarískum ólympíuförum.

Meðal annars var upplýsingum stolið um tennissysturnar Venus og Serenu Williams ásamt fimleikakonunni Simone Biles sem sló eftirminnilega í gegn á leikunum í Ríó í síðasta mánuði og vann til fernra gullverðlauna.

Hópur sem kallar sig „Fancy Bears“ lýsti sig ábyrgan fyrir árásinni á gagnagrunn Alþjóðalyfjaeftirlitsins. „Eftir að hafa grandskoðað hakkaðan gagnarunn WADA sáum við að fjölmargir bandarískir íþróttamenn greindust með jákvæð sýni,“ sagði í yfirlýsingu frá hópinum en aðgangurinn sem notaður var er einnig þekktur undir nafninu Tsar Team (APT28). Sagði hópurinn meðal annars að hann hafi séð að Biles hafi notað ólögleg lyf.

Eftir lekann sá Simone Biles sér þarft að segja frá því á Twitter að hún sé greind með ADHD og hafi tekið lyf vegna þeirrar greiningu frá því að hún var barn.

„Ríó-verðlaunahafarnir notuðu reglulega sterk og ólögleg lyf sem vottuð voru af læknum til nota. Með öðrum orðum, þá fengu þeir leyfi fyrir því að nota ólögleg lyf. Þetta er annað dæmi sem sýnir fram á spillingu og blekkingarleik WADA og Alþjóðaólymp­íu­nefnd­arinnar.“

WADA sagði í tilkynningu í dag að árásirnar væru til þess gerðar að grafa undan alþjóðlega lyfjaeftirlitinu.

Talsmaður rússneskra yfirvalda, Dmitry Pesko, segir í rússneskum fjölmiðlum að það sé af og frá að rússnesk yfirvöld eða leyniþjónustan þar í landi sé á bak við árásina.

Hakkararnir komust yfir gögn sem innihalda upplýsingar sem snúa að lyfjum sem ekki eru leyfileg undir venjulegum kringumstæðum en séu leyfð þar sem læknar hafi gefið grænt ljós á þau vegna þarfa viðkomandi einstaklinga.

Rússneskum frjálsíþróttamönnum var bannað að keppa á Ólympíuleikunum í Ríó vegna meintrar skipulagðrar lyfjamisnotkunar þar í landi studdrar af stjórnvöldum.

„Ljóst er að þessar glæpsamlegu aðgerðir stofna tilraunum Alþjóðalyfjaeftirlitsins til þess að endurbyggja traust við Rússland í hættu,“ sagði framkvæmdastjóri WADA, Olivier Niggli, í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert