Frábært að vita af ömmu í stúkunni

Eyþóra Þórsdóttir.
Eyþóra Þórsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Fimleikadrottningin Eyþóra Þórsdóttir keppti á sínu fyrsta móti hér á landi á laugardag er hún var meðal keppenda á fjölþrautamóti WOW International Games, Reykjavíkurleikanna.

Eyþóra á íslenska foreldra en hún hefur alla tíð búið í Hollandi og keppir hún fyrir hönd Hollands. Svo fór að Eyþóra vann mótið og hafði hún betur gegn heimsmeistaranum á tvíslá, Daria Spiridonova, og einni efnilegustu fimleikastúlku Bandaríkjanna, Sydney Johnson-Scharpf.

Um klukkutíma eftir að mótinu lauk voru allir keppendur þess farnir til búningsklefa, nema Eyþóra. Hún var enn að sinna aðdáendum sínum og er greinilegt að hún er afar vinsæl hér á landi. Í hvert skipti sem hún steig á svið ærðist stúkan hreinlega.

Í sumar hafnaði Eyþóra í 9. sæti í fjölþraut á Ólympíuleikunum í Ríó, ásamt því að hún var kosin bjartasta von Hollands í íþróttum í fyrra. Eyþóra var ánægð með frammistöðu sína á mótinu og eins og gefur að skilja, ánægð með að bera sigur úr býtum.

„Þetta gekk ágætlega, ég kom hingað til að prófa nýja hluti. Reglurnar hafa örlítið breyst og dómararnir dæma öðruvísi en áður. Mér fannst nýju hlutirnir mínir ganga vel, þó þetta sé ekki komið í Ólympíuleika-klassa enn þá. Ég á enn eftir að bæta nokkrum hlutum við en heilt yfir er ég sátt við mitt,“ sagði hún í samtali við Morgunblaðið eftir að keppni lauk.

„Stelpur eins og Daria Spiridonova og Sydney Johnson-Scharpf eru virkilega góðar og það var gaman að keppa við þær. Það er rosalega skemmtilegt að vinna mót sem þær tóku þátt í.“

Æðislegt að sjá spjöldin

Aðspurð hvernig það væri að keppa á Íslandi, segir hún það hafa verið ansi skemmtilegt. Hún finnur vel fyrir stuðningnum sem hún fær og kann hún virkilega að meta hann. Rétt fyrir æfingar á gólfi sneri hún sér við og veifaði til æstra aðdáanda sem kölluðu til hennar. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég keppi á Íslandi og það var mjög gaman að sjá fólkið hérna standa við bakið á mér. Það var æðislegt að sjá litlar stelpur með spjöld með nafninu mínu á. Ég fékk góða tilfinningu í hjartað við að sjá það. Þegar ég er að fara að byrja að gera gólfæfingar, þá er ég mjög einbeitt og ég gat ekki alveg snúið mér við og sagt hæ,“ sagði hún og hló. „Ég reyndi hins vegar að sýna hversu gaman mér finnst það, og hversu þakklát ég er þegar ég fæ svona mikinn stuðning.“

Sjá allt viðtalið við Eyþóru í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert