Sem betur fer með góða breidd

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Íslands.
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Íslands. Ómar Óskarsson

Ívar Ásgrímsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfuknattleik, var ánægður með sigurinn í kvöld á Möltu en lokatölu urðu 10 stiga sigur Íslands, 83:73.

„Þetta var góður sigur en við byrjuðum mjög illa. Stelpurnar voru svolítið ragar og þungar í byrjun. Við hittum ekki neitt og vorum staðar sóknarlega. Það vantaði líka hörkuna varnarlega en sem betur fer erum við með góða breidd og við fáum stelpur inn af bekknum sem koma með smá baráttu varnarlega sem breyttu leiknum. Ég var mjög ánægður með svona 80% af leiknum,“ sagði Ívar.

Ýmislegt má þó laga fyrir næsta leik.

„Við þurfum að læra að vera grimm allan leikinn. Þegar við fórum að spila grimma vörn þá kom sóknin með. Við erum dálítið að halda boltanum á sama kanti. Við þurfum að „swinga“ boltanum betur á veiku hliðina og fá meiri hreyfingu þar. Það fannst mér vanta mjög mikið í þessum leik,“ sagði Ívar.

Helena Sverrisdóttir var fantagóð í liði Íslands í leiknum í kvöld og skoraði 22 stig. Eins og margir vita er hún komin heim á ný eftir langa veru erlendis í atvinnumennsku en hún mun spila með liði Hauka á næsta tímabili.

Helena segist vera afar ánægð með það að vera komin heim til Íslands á ný.

„Ég er mjög spennt og var búin að taka þessa ákvörðun í janúar eiginlega að ég ætlaði ekki að vera úti á næsta ári. Ég er ótrúlega spennt og fegin að vera komin heim. Ég var komin með mikla heimþrá og þurfti að koma og hlaða batteríin hérna heima. Svo veit maður aldrei hvað gerist,“ sagði Helena.

Nánar er rætt við hana í Íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun.

Helena Sverrisdóttir í leiknum gegn Möltu í kvöld.
Helena Sverrisdóttir í leiknum gegn Möltu í kvöld. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert