c

Pistlar:

26. september 2013 kl. 8:13

Bjarni Már Gylfason (bjarnigylfason.blog.is)

Álver á Íslandi tjalda ekki til einnar nætur

Gangur efnahagslífsins er í eðli sínu sveiflugjarn og líklega þekkja fáar þjóðir það betur en við Íslendingar. Hagsveiflur hér hafa jafnan verið mun meiri en í nágrannalöndum okkar og skiptir þar smæð og einhæfni íslensks atvinnulífs líklega mestu. Sögulega áttu upptök slíkra sveifla sér jafnan stað í sjávarútvegi. Síðasta niðursveifla átti hins vegar upptök sín í  fjármálakerfinu.

Hagsveiflur gegna veigamiklu hlutverki í hagkerfinu í heild sinni og á einstökum mörkuðum. Þegar vel árar byggist framleiðslugeta upp með aukinni fjárfestingu, fleira fólk er ráðið, afurðaverð og kaupgjald hækka svo fátt eitt sé nefnt. Slíkt ástand varir þó sjaldnast lengi. Annaðhvort eykst framleiðslugetan of mikið eða eftirspurnin gefur eftir og ákveðin leiðrétting á sér stað. Þannig er niðursveifla oftast óhjákvæmilegur fylgifiskur uppsveiflu en hvorutveggja er eðlilegur hluti af markaðshagkerfinu.

Að undanförnu hafa birst greinar og fréttir þar sem ákaflega dökk mynd er dregin upp af stöðu áliðnaðar, bæði hérlendis og á heimsvísu. Því er haldið fram að  það sé bara spurning um tíma hvenær álver á Íslandi loki og að frekari uppbygging sé bæði ólíkleg og óarðbær. Þessi nálgun er röng og ber vott um skammsýni. Það er óumdeilt að erfiðleikar steðja að greininni. Verð á alþjóðamörkuðum hefur farið lækkandi, birgðasöfnun hefur verið nokkur og eftirspurnin veikari en skyldi, meðal annars vegna krísunnar á evrusvæðinu. En þessir erfiðleikar eru hluti af eðlilegri hagþróun og nauðsynlegt að greina þá frá langtímaleitni greinarinnar.

Erfiðleikar kalla á hagræðingu

Á árunum 2004-2008 gekk íslenskur sjávarútvegur í gegnum miklar hremmingar sem öðru fremur skýrðust af alltof sterku gengi krónunnar og þar með vondri samkeppnisstöðu. Engum datt samt í hug að afskrifa sjávarútveginn. Eðlileg viðbrögð greinarinnar voru margvísleg hagræðing sem stuðlaði að því að þegar aðstæður breyttust varð greinin mun  arðbærari og samkeppnishæfari en ella. Þannig kalla efnahagserfiðleikar á hagræðingu sem skilar sér í bættri afkomu. Þarna eru gamalkunnug efnahagslögmál að verki.

Þessi sömu lögmál eru að verki á álmörkuðum. Vissulega eru álframleiðendur að loka sumum álverum. Meginástæðan er sú að þau eru óhagkvæm. Yfirleitt er þá orkan of  dýru verði keypt eða tæknin úrelt. Þetta er eðlilegt við þær markaðsaðstæður sem nú eru uppi. En hagkvæm álver hætta ekki framleiðslu, ekki frekar en íslenskur sjávarútvegur hætti veiðum þegar illa áraði. Þvert á móti snúa menn vörn í sókn, hagræða og straumlínulaga reksturinn og bæta framleiðslulínuna.

Vinningsstaða á Íslandi?

Álverin á Íslandi fara ekki varhluta af ástandinu og það kemur niður á afkomu þeirra. En það þýðir ekki að örvænta þurfi um áliðnaðinn hér á landi. Þvert á móti hafa öll álverin fjárfest umtalsvert í bættri framleiðslulínu og meiri afköstum og þar með aukið samkeppnishæfni sína. Fjárfestingarnar felast í stækkun, tækniþróun og verðmætari afurðum. Allt er þetta gert til að búa í haginn fyrir framtíðina og það mun skila sér þegar markaðirnir taka við sér. Engin ástæða er til að ætla annað en að það gerist og framtíðarmöguleikar áls eru miklir þótt ýmsir spái erfiðleikum til skemmri  tíma litið. Ekki þarf annað en að líta til sívaxandi krafna um notkun á áli í samgöngum, þar sem léttmálmurinn dregur úr eldsneytisþörf og losun gróðurhúsalofttegunda.

Fjármálaspekúlantar og fjölmiðlamenn hafa gjarnan mestan áhuga á skammtímasveiflum og punktstöðu. En í álverum er ekki tjaldað til einnar nætur. Enda er stofnkostnaður hár og orkusamningar mældir í áratugum. Staðreyndin er sú að greiningaraðilar eru á einu máli um að eftirspurn eftir áli haldi áfram að aukast og þegar staða hagkerfis Evrópu batnar verður mikil uppsöfnuð þörf bæði í bíla- og byggingariðnaðinum. Það mun koma þeim álverum sem standa kreppuna af sér til góða.

Og það skiptir máli fyrir Íslendinga. Á hverju ári nemur kostnaður álveranna sem til fellur hér á landi um 100 milljörðum. Þar af fara um 40 milljarðar í kaup á raforku, en jafnhárri upphæð er varið í kaup á vörum og þjónustu og 20 milljarðar fara í laun og opinber gjöld. Það munar auðvitað um áskrift að 100 milljarða gjaldeyristekjum á hverju ári. En auk þess hafa öll álverin hér á landi staðið fyrir nýfjárfestingum eftir hrun og það eru nánast einu erlendu fjárfestingarnar á því tímabili. Munar þar mestu um 60 milljarða fjárfestingu RioTinto Alcan, en það er 10 ára samanlagður hagnaður félagsins.

Ef þessar fjárfestingar sýna ekki alvöruna sem býr að baki rekstri þessara fyrirtækja, þá er erfitt að átta sig á hvað þarf til. Það er því óvarlegt að efast um staðfestu Norðuráls þegar kemur að fyrirhuguðum framkvæmdum í Helguvík.

Í öllu falli er ljóst að ef álverin á Íslandi verða áfram hagkvæm og þróa samkeppnishæfni sína, samhliða því að Íslendingar skapi hagstætt umhverfi fyrir gróskumikið atvinnulíf, þá munu þau áfram skila mikilsverðu framlagi í íslenskan þjóðarbúskap komandi áratugi.

Bjarni Már Gylfason

Bjarni Már Gylfason

Bjarni Már Gylfason er hagfræðingur að mennt og starfar hjá RioTinto í Straumsvík. Hann var hagfræðingur Samtaka iðnaðarins á árunum 2005-2017. Kenndi áður hagfræði og skyldar greinar við Verzlunarskóla Íslands 2000-2005 og var blaðamaður á Viðskiptablaðinu frá 1998-2000.

Meira