c

Pistlar:

2. maí 2013 kl. 2:35

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

Stefnu(fjár)mál íslenskra stjórnmálaflokka

Það er merkilegt að aðeins rúmum fjórum árum eftir að eitt mesta hrun fjármálasögunnar átti sér stað á Íslandi var sáralítil umræða varðandi fjármál í nýliðinni kosningabaráttu. Af fjórflokkunum fjölluðu tveir nánast ekki neitt varðandi stefnu í fjármálum. 

VG komu ekki fram með nokkra einustu stefnu í þeim efnum. Ef mér skjátlast þá var hún vel falin.

Samfylkingin fjallaði einnig nánast ekkert um fjármál. Það var eiginlega aðeins eitt atriði; upptaka evru.

Þrátt fyrir að almenningur virtist hafa takmarkaðan áhuga á Evrópumálin í aðdraganda kosninga ákvað Samfylkingin að spila enn einu sinni evrutrompinu um að upptaka hennar myndi leiða til lægri fjármagnskostnaðar. Í (hræðilegri) auglýsingaherferð var meðal annars vitnað í að íslensk fjölskylda borgar heimili sitt að jafnaði tvisvar en evrópsk fjölskylda borgar sitt aðeins einu sinni. Ekki kom fram í auglýsingarherferðinni hvort verið væri að miða við raunvirði eða nafnvirði né hvort miðað væri við sambærileg lán hvað meðallengd varðar. Skilaboðin eru hins vegar augljós: Upptaka evru myndar einhverja galdralausn við að lækka fjármagnskostnað.

Gaman væri ef lífið væri svo einfalt. Vandamálið á Íslandi er að raunvextir eru miklu hærri en í nágrannaríkjum og það hefur ekkert með gjaldmiðil okkar að gera. Hér hefur lánakerfið verið um árabil slakt og bankakerfið kostnaðarsamt í samanburði við önnur lönd. Í landi þar sem að gæði lánveitinga hafa verið jafn slakar og á Íslandi þarf stöðugt að afskrifa allt of stóran hluta útlána. Slíkur kostnaður er dekkaður með því að hækka raunvexti fyrir alla hina. Með of dýru bankakerfi þarf að leggja enn hærri vaxtakostnað á lán. Til að bæta gráu oná svart var allt gefið í botn síðastliðinn áratug varðandi lánshlutföll af húsnæði og gylliboðum af hálfu bankanna með alkunna endalokum. Krónur eða evrur skipta einfaldlega engu máli í þessum efnum; svo lengi sem gæði útlána á Íslandi eru slök þá verða raunvextir hérlendis háir, allt of háir.

Sjálfsstæðisflokkur kom með góðar tillögur varðandi sparnað. Það má segja að það sé kominn tími til að einhver flokkur komi fram með hugmyndir um að verðlauna fólki með vilja til að spara og jafnvel greiða inn á húsnæðislán sín og skapa þannig fljótari eignamyndun. Einnig hefur flokkurinn lagt áherslu á að lyklalög taki gildi, eitthvað sem ég á erfitt með að átta mig á af hverju var ekki keyrt í gegn á síðasta kjörtímabili. Hann hefur auk þess sett fram viljayfirlýsingu um að aðskilja bankarekstur þannig að einhver takmörk verði á áhættugleðinni sem óhjákvæmilega myndast næst þegar að ofurbjartsýni nær tökum á landsmenn (annað mál sem virðist hafa dagað uppi á síðasta kjörtímabili).

Verði Sjálfsstæðisflokkurinn í næstu ríkisstjórn hlýtur það að vera skýlaus krafa flokksins að þessi ofangreind atriði komi strax til framkvæmda.

Mörgum hefur sjálfssagt þótt það vera undarlegt að Framsóknarflokkurinn "lofi" skuldarniðurfærslu eftir 90% lána fíaskó-ið. Jafn gagnrýnin og ég var á flokkinn fyrir þátt sinn í því að hella olíu á þann útlánaeld á sínum tíma þá hefur flokkurinn verið stöðugt með hugmyndir að lausnum í tengslum við heimilin í sambandi við fjármál síðastliðin ár. Ég er ekki sammála öllum hugmyndum flokksins en ég, eins og til dæmis Stefán Ólafsson, furða mig á að aðrir flokkar hafi ekki nálgast þeim hugmyndum sem Framsóknarflokkurinn hafði í kosningabaráttu sinni. Betra hefði verið að koma með aðrar hugmyndir á útfærslum varðandi fjármál og heimilin í stað þess að einblína á að skjóta niður hugmyndir Framsóknarflokksins.

Eitt sem olli mér hins vegar vonbrigðum með alla flokka var að enginn þeirra minntist á hvernig lækka ætti raunvexti á Íslandi (evru-lausnin er á mínum huga ekki alvöru lausn). Það gengur ekki til lengdar að land og þjóð greiði raunvexti almennt á bilinu 3,5% til 4,0% með hagvöxt í besta falli tæplega 2,0% miðað við hvern einstakling. Frá sjónarmiði raunvaxta hefði átt að vera augljóst að hér færi allt á versta veg á einhverjum tímapunkti. Lækkun raunvaxta ætti að vera eitt af forgangsatriðum stefnu(fjár)mála íslenskra stjórnmálaflokka næstu árin.

Það hlýtur að vera umhugsunarefni að þeir flokkar sem minnst fjölluðu um fjármál í kosningabaráttu sinni hafi goldið jafn mikið afhroð og raun bar vitni. Vart er hægt að kenna það einfaldlega um að þeir hafi þurft að framfylgja erfið mál. Fyrirtæki eru með stefnur sem taka tillit til fjármála; ættu stjórnmálamenn ekki að gera slíkt hið sama?

MWM

Viðbót 5.5.2013 - Hægt er að sjá viðtal við mig í tengslum við þessa grein hér - http://www.mbl.is/frettir/sjonvarp/82090/ - en ég fjalla í viðtalinu einnig um möguleika flokka til samstarfs við Framsóknarflokkinn. Mín skoðun sem fram kemur í viðtalinu er sú að það væri hæglega grundvöllur fyrir samstarfi með Sjálfsstæðisflokknum þrátt fyrir töluverðan mun á stefnumálum í fjármálum. Rétt er að halda því til haga að ég taldi hina flokkana líka vera kandidata, einfaldlega að því að stefna þeirra í fjármálum væri hér um bil óskrifað blað.

Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Lektor í fjármálum við Háskóla Íslands.

Nýlegar greinar:

Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst - https://www.dropbox.com/s/82in2fz3uzcll7w/tvisynileiki%20og%20upplifun%20leigenda.pdf?dl=0

Nations of Bankers & Brexiteers - https://journals.sagepub.com/doi/epub/10.1177/03063968211033525

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík (2015-2022).

Meðdómari í tveimur veigamiklum málum tengd fjármálahruni Íslands.

Einn af höfundum "Costco skýrslunnar" í samstarfi við Zenter rannsóknir.

Starfaði í 15 ár í íslenskum bönkum og sparisjóðum sem forstjóri, yfirmaður verðbréfasviðs, við lausafjárstýringu, eigin viðskipti (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), sjóðastýringu (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), eignastýringu, FX, miðlun verðbréfa, uppsetningu séreignalifeyrissparnaðar, uppsetningu millibankaviðskipta, uppsetningu erlendra verðbréfaviðskipta,uppsetningu verðbréfafyrirtækja, og greiningu á fjárfestingakostum.

PhD Business Administration - Háskólinn í Reykjavík 2016

MSc Fjármál fyrirtækja - Háskóli Íslands 2009

B.S.B.A. Finance - University of Arizona 1994

B.A. Philosophy - University of Arizona 1994

Löggiltur verðbréfamiðlari - USA 1996 og Ísland 2001

Greinasafn - http://www.slideshare.net/marmixa

https://www.researchgate.net/profile/Mar_Mixa

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira