c

Pistlar:

8. janúar 2016 kl. 13:27

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

Kína og hlutabréf - mýtur um hrun

Hlutabréf í Kína eru aftur í sviðsljósinu þessa dagana eftir töluvert mikið fall hlutabréfavísitölunnar þar í upphafi árs. Aðrir hlutabréfamarkaðir féllu einnig í virði.

Ýmsar skýringar hafa komið fram varðandi þetta verðfall hlutabréfa en að mínu mati eru engar nýjar fréttir að koma fram. Gengi hlutabréfa í Kína er á svipuðum slóðum og það var í haust og einnig fyrir ári síðan. Frá ársbyrjun 2014 hækkaði gengi kínverskra hlutabréfa mikið en féll svo aftur um haustið. Eftir það mikla fall hækkaði gengi kínversku hlutabréfavísitölunnar á nýjan leik aðeins til að falla aftur á svipaðar slóðir. Lítið er vitað hversu mikinn þátt kínversk stjórnvöld hafa á gengi hlutabréfa en ekki er útilokað að þau geri slíkt með einhverjum hætti, eins og stjórnvöld margra annarra ríkja gera með beinum eða óbeinum hætti.

Fjallað hefur verið um að hægja sé á vexti kínverska hagkerfisins. Aftur, það eru ekki nýjar fréttir. Líkum hefur verið leitt að því í töluverðan tíma auk þess sem bent hefur verið á ýmis bólueinkenni innan hagkerfisins í mörg ár. Hinn mikli vöxtur kínverska hagkerfisins hefur verið byggður upp með svipuðum hætti og Sovétríkin gerðu á tíma Stalíns (já, það var mikill hagvöxtur þar í nokkra áratugi). Fólk hefur verið flutt úr sveitum í borgir þar sem að verksmiðjur hafa verið reistar til að framleiða ódýran varning til sölu um allan heim. Hagvexti byggðum á slíkum forsendum lýkur á einhverjum tímapunkti, það er einungis spurning um hvenær.

Einnig hefur verið bent á að fjárfestar séu órólegir vegna lækkandi olíuverðs. Má ætla af þeim skrifum að olíuverð endurspegli hagvöxt og gengi hlutabréfa að einhverju leyti. Verð á fati af olíu fór niður í $10 árið 1999 á sama tíma og hlutabréfamarkaðir voru á blússandi siglingu. Síðan hækkaði verðið á olíu jafnt og þétt næstu árin fram að árinu 2008. Á sama tíma lækkaði gengi hlutabréfa frá árinu 2000-2003 og tók þá að hækka á nýjan leik. Engin fylgni var á milli olíuverðs og gengi hlutabréfa á tímabilinu. Olíuverð náði hæstu hæðum sumarið 2008 og kostaði fatið þá $145. Olíuverð hækkaði mikið fyrstu mánuði þess árs og lækkaði gengi hlutabréfa á sama tíma. Aftur, engin fylgni var sjáanleg á milli þessara tveggja þátta. Nú er sagt að gengi hlutabréfa sé að lækka að því olíuverð sé lágt!

Einföld skýring er sú að gengi hlutabréfa fyrirtækja í olíugeiranum lækkar þegar að olíuverð fellur. Að sama skapi hafa neytendur meiri peninga á milli handanna í aðra neyslu og sást það til dæmis á íslenska hlutabréfamarkaðinum í gær (fimmtudag) þegar að hlutabréf Haga hf. hækkuðu í verði á meðan að íslenska hlutabréfavísitalan lækkaði tæplega 2%.

Reyndar væri það ágætt fyrir íslenska fjárfesta ef erlend verðbréf falla í verði næstu mánuði og jafnvel ár. Nú þegar að gjaldeyrishöftum verður aflétt er vel hugsanlegt að flestir góðir fjárfestingarkostir á erlendum mörkuðum verði ekki lengur til staðar, enda hefur gengi hlutabréfa hækkað mikið síðustu ár og hefur bandaríska Dow Jones hlutabréfavísitalan tvöfaldast síðustu 7 ár (jafngildir um það bil 10% árlegri jafnri ávöxtun). Lækki erlend verðbréf í virði gæti það einfaldlega skapað kauptækifæri fyrir Íslendinga á erlendri grundu.

Ég var í viðtali á RÚV í gær (fimmtudag) vegna þessa máls, hægt er að hlusta á viðtalið með því að ýta á „spila“ hnappinn á miðri mynd af mér sem kemur fram hérna - http://ruv.is/frett/ofmaelt-ad-tala-um-hrun

MWM

Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Lektor í fjármálum við Háskóla Íslands.

Nýlegar greinar:

Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst - https://www.dropbox.com/s/82in2fz3uzcll7w/tvisynileiki%20og%20upplifun%20leigenda.pdf?dl=0

Nations of Bankers & Brexiteers - https://journals.sagepub.com/doi/epub/10.1177/03063968211033525

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík (2015-2022).

Meðdómari í tveimur veigamiklum málum tengd fjármálahruni Íslands.

Einn af höfundum "Costco skýrslunnar" í samstarfi við Zenter rannsóknir.

Starfaði í 15 ár í íslenskum bönkum og sparisjóðum sem forstjóri, yfirmaður verðbréfasviðs, við lausafjárstýringu, eigin viðskipti (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), sjóðastýringu (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), eignastýringu, FX, miðlun verðbréfa, uppsetningu séreignalifeyrissparnaðar, uppsetningu millibankaviðskipta, uppsetningu erlendra verðbréfaviðskipta,uppsetningu verðbréfafyrirtækja, og greiningu á fjárfestingakostum.

PhD Business Administration - Háskólinn í Reykjavík 2016

MSc Fjármál fyrirtækja - Háskóli Íslands 2009

B.S.B.A. Finance - University of Arizona 1994

B.A. Philosophy - University of Arizona 1994

Löggiltur verðbréfamiðlari - USA 1996 og Ísland 2001

Greinasafn - http://www.slideshare.net/marmixa

https://www.researchgate.net/profile/Mar_Mixa

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira