c

Pistlar:

8. október 2015 kl. 8:39

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Dulið mikilvægi íþróttaiðkunar

Í dag fimmtudag klukkan 15:00, í Laugardalshöll, verður kynnt ný frumrannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem ber heitið „Íþróttir á Íslandi umfang og hagræn áhrif“. Skýrslan er rituð af þeim Þórólfi Þórlindssyni, Viðari Halldórssyni, Jónasi Hlyn Hallgrímssyni, Daða Lárussyni og Drífu Pálín Geirs.

Þessi skýrsla, þrátt fyrir að vera einungis áfangaskýrsla af verki í vinnslu, er stórmerkilegt innlegg í íslenska þjóðfélagsumræðu. Meðal þess sem kemur fram og hefur náð athygli fréttamiðla er að beinar gjaldeyristekjur af íþróttastarfi eru um 4 milljarðar á ári og 25 til 30 þúsund ferðamenn sækja Ísland heim árlega vegna íþróttatengdrar starfsemi. 

Það sem mig langar að vekja hér máls á, er þáttur sem ekki hefur farið eins hátt. Hlutverk íþróttahreyfingarinnar í samfélaginu, hvers virði það er og hvernig þjóðfélagið metur það framlag. 

Skýrsluhöfundar nefna að þar sem vel er staðið að íþróttastarfi hafi það mikilvæg og jákvæð áhrif á lýðheilsu hér á landi. Gögn sem skýrsluhöfundar hafa aflað sér sýna tengsl íþróttaþátttöku og heilsutengdrar hegðunar unglinga. Þetta eru jákvæð forvarnaráhrif sem oftar en ekki eru hulin. Skýrsluhöfundar leiða að því líkum að framlag íþróttahreyfingarinnar (sem að stærstum hluta er hreyfing sjálfboðaliða) til lýðheilsu nemi milljörðum árlega í formi bættrar heilsu og lægri heilbrigðiskostnaðar. 

Ég er einn þeirra sem hef lengi haldið því fram að mikilvægi Íþróttahreyfingarinnar fyrir samfélagið sé dulið og ekki metið að verðleikum. Skýrsla þessi staðfestir þann grun án nokkurs vafa. 

Rétt er á þessum tímapunkti að benda stjórnmálamönnum og fyrirsvarsmönnum fyrirtækja á þá staðreynd að mikil tækifæri felast í því að sýna samfélagslega ábyrgð og standa duglega við bakið á þeirri hreyfingu sem stundar mannrækt á börnum og unglingum þessa lands, oftast með frábærum árangri, þjóðinni allri til heilla.

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur