c

Pistlar:

26. september 2016 kl. 8:51

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Framsókn og fjölmiðlasirkusinn

Undirritaður hefur verið á ferð erlendis síðustu vikur og því ekki haft tækifæri til þess að fylgjast með fréttum að heiman með jafn reglulegum hætti og venjur hversdagsins bjóða. Í gær (sunnudag) gafst stund til þess að kíkja á nokkra netmiðla og taka stöðuna. 

Á forsíðu mbl.is voru hvorki fleiri né færri en 11 fréttir sem snérust um bræðravígin í Framsóknarflokknum.  Á Vísi og DV var þetta svipað en ég taldi því miður ekki þar. 

Núna rétt rúmum mánuði fyrir kosningar þegar pólitísk umræða á að vera í hámæli. Stefnumál flokkanna dregin fram og línur skerptar á milli mismunandi valkosta kemst þessi sjálfsagða og eðlilega umræða ekki að vegna áhuga fjölmiðla á því sem er að gerast innanflokks hjá Framsókn. 

Ég velti fyrir mér hvort hlutverk fjölmiðla hafi breyst svo mikið að þeir hafi engan áhuga á því að tala um það sem skiptir máli heldur kjósi frekar að ræða það sem getur vakið meiri athygli, mælst betur í rafrænum mælingum dagsins. Hvað svo sem svarið kann að vera er ljóst að mikill skortur er á faglegri pólitískri umræðu. Nokkrir dagar í burtu hafa fengið mig til þess að velta því fyrir mér hvort það sé í raun þannig að fjölmiðlar landsins eru ítrekað farnir að skapa atburðarásina. Í stað þess að skýra fyrir neytendum sínum hvað er að gerast, dikta þeir gjarnan upp hluti byggða á eigin pólitískum skoðunum og reyna að skapa umræður um það. 

Það er í sjálfu sér ekkert við því að segja ef einkareknir miðlar endurspegla að einhverju leiti skoðanir eigenda sinna. Þannig er það bara og verður. Alvarlegra er þegar miðlar í eigu ríkisins endurspegla persónulegar skoðanir þeirra sem þar starfa. En það hefur ítrekað gerst með afgerandi hætti síðustu vikur. Hugmyndir um að RÚV eigi að vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða, hafa tæpast verið hafðar í heiðri.

Ég skil reyndar að nokkru leiti áhuga fjölmiðla á Framsóknar sápuóperunni sem þjóðinni er boðið upp á í fjölmiðlum þessa dagana. Ég man bara ekki eftir að það hafi áður gerst í sögu þjóðarinnar að sitjandi forsætisráðherra komi fram í viðtali og lýsi sjálfan sig ómerking orða sinna. 

Maðurinn hafði áður mætt í viðtöl og lýst skoðunum sínum á fumlausan og ákveðinn hátt. Sjá dæmi hér. Nú kemur hann fram fyrir alþjóð og segir eitthvað allt annað. 

Stjórnmál snúast um traust og heilindi. Við sem höfum rétt á því að kjósa reynum að leggja atkvæði okkar til þeirra sem við treystum helst til þess að vinna okkar hugmyndum og hugsjónum brautargengi. Jú jú svo vitum við að stjórnmál snúast um málamiðlanir. Engir fá allt sitt. En þegar aðilar sem óska eftir trausti samflokksmanna sinna koma fram og lýsa því í viðtali að þeir séu ómerkir orða sinna, á sama tíma og þeir óska eftir stuðningi samflokksmanna, þá er eitthvað orðið verulega skakkt og bogið. 

Er nema von að fjölmiðlasirkusinn hafi gaman af þessu rugli. 

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur