Kassabíll með kosti fjölnota bílsins

Mercedes Benz kynnir nú til sögunnar nýjan bíl af fjölskylduvænni stærð sem kallast Citan og er þar höfðað til borgarfjölskyldunnar eins og nafnið ber með sér. Sjaldan hefur þó verið smíðaður jafn franskur Benz og þessi því hann er hannaður í samvinnu við Renault-Nissan og byggður á Renault Kangoo-sendibílnum.

Þar að auki verður hann framleiddur við hliðina á Kangoo í verksmiðju Renault í Maubeuge í Frakklandi. Bílablað Morgunblaðsins hafði nýjan Citan til reynslu í síðustu viku og prófaði tvær gerðir hans, sendibílinn og fjölnota fjölskyldubílinn.

Fjölhæfur kostur

Mercedes-Benz Citan kemur í þremur útfærslum, þ.e. tveggja sæta sendibíll, fimm sæta sendibíll með bekk sem er nokkurs konar fjölnota bíll og svo fimm sæta fjölskyldubíll. Fyrir utan franska frænda sinn verður aðalkeppinautur hans hinn vinsæli VW Caddy sem er ráðandi á markaðinum hérlendis og svo Ford Transit Connect. Bíllinn verður í boði með fjórum gerðum véla og í þremur lengdarútfærslum, Compact, Long og Extra long, með rennihurðum á hliðum og vali á nokkrum gerðum hurða að aftan.

Stór á alla kanta

Innrétting bílsins er meira í ætt við dýrari gerðir bíla og fullkomlega sambærileg við stóra bróður sinn, Vito. Framsætin eru hæðarstillanleg sem er alltaf ótvíræður kostur í vinnubíl. Hægt að leggja niður öll aftursæti og einnig hægra framsæti en bara með nokkurri fyrirhöfn, leggja þarf höfuðpúða alveg niður og þrýsta honum með brún hanskahólfsins svo að það er ekki eitthvað sem gert er með einu handtaki. Hurðir eru stórar og þægilegar á alla kanta en hátt innstig skemmir þó aðeins fyrir. Afturhleri er stór og þarf því dálítið pláss til að opnast en aðgengi er þannig að flutningur á þvottavél yrði ekki einu sinni vandamál á þessum bíl. Þar sem hægt er að leggja niður framsæti má flytja mjög langa hluti í bílnum, til dæmis bókahillu í fullri lofthæð.

Þýður og eyðslugrannur

Ef það er ekki nóg, kemur hann einnig með langbogum á þaki sem eru með mjög sniðugri útfærslu. Með einu handtaki smellur efri hluti langbogans út og með því að leggja hann til hliðar verður hann að þverboga sem smellur í hinu megin.

Í akstri kemur það manni fyrst þægilega á óvart hversu lítið undirstýrður hann er þrátt fyrir byggingarlag sitt. Hann leggur líka vel á og stýrið er nákvæmt. Aflið frá vélinni mætti vera meira en togið kemur þó inn að lokum og hjálpar í brekkum. Eyðsla 1,5 lítra BlueEFFICIENCY dísilvélarinnar er aðeins 4,6 lítrar á hundraðið sem er með því besta sem gerist í þessum flokki og þegar horft er til stærðarinnar eru þessar tölur sér á parti. Þessi vél er líka með lægsta mengunargildið í sínum flokki. Vélin er vel hljóðeinangruð en það vottar þó fyrir vindhljóði í akstri, líklega vegna þakboganna. Útsýni mætti vera betra, sérstaklega í sendibílaútfærslunni þar sem hann vantar sárlega blindhornsspegla, en blindhornsendi á hliðarspeglum dugar ekki til. Eins og alltaf í Benz-bílum skiptir öryggi máli og Citan er þar engin undatekning. Hann kemur með ESP-stöðugleikastýringu sem staðalbúnaði en hún tekur hleðslu bílsins með í reikninginn.

Verðlagður til samkeppni

Hægt er að fá fjölskylduútgáfuna með allt að sex öryggispúðum en hérlendis er staðalbúnaður fjórir öryggispúðar, aðeins í framsætum. Bíllinn sem sést hér á myndum á síðunni er fimm manna fjölskylduútfærsla Citan en þannig kostar hann aðeins 3.960.000 kr. sem verður að teljast gott verð. Grunnverð Citan í sendibílaútfærslu sinni er 3.490.000 kr. með virðisaukaskatti. Það er algjörlega á pari við aðalkeppinautinn VW Caddy sem er á sama verði með sambærilegri 1,6 lítra dísilvél. Ford Transit Connect er 100 þúsund krónum ódýrari með 1,8 lítra dísilvélinni en óhætt er að segja að Citan sé verðlagður til að standa uppi í hárinu á samkeppninni.

njall@mbl.is

Njáll Gunnlaugsson

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: