Meiri bíll í minni pakka

Nýr Vitara er ansi laglegur og stílhreinn og það setur …
Nýr Vitara er ansi laglegur og stílhreinn og það setur mikinn svip á hann hvernið krómað grillið er í sömu línu og vel löguð framljósin.

Í dag keppast flestir framleiðendur að bjóða fram nýjar og sífellt fjölbreyttari gerðir jepplinga. Sumir eru að stíga þar sín fyrstu spor þótt þeir hafi verið lengi í bransanum en Suzuki er eldri en tvævetur í þessum geira.

Suzuki Jimny hefur verið til síðan 1970 og stóri bróðirinn Vitara kom á markað árið 1988 og hefur verið seldur í meira en þremur milljónum eintaka. Í ár er komið að nýjum kafla hjá Suzuki því að komin eru á markað tvö ný módel, S-Cross og nýr Vitara sem byggjast á sömu botnplötu. Lága drifið er horfið og Vitara er ný hönnun alveg frá grunni sem er betur fallinn til að keppa við samkeppnisaðilana. Nokkrum útvöldum blaðamönnum gafst tækifæri á að reyna nýja bílinn við margskonar aðstæður í Portúgal nýlega. Um var að ræða kynningarbíla þar sem Vitara er ekki kominn í framleiðslu og því ber að skoða þetta frekar sem kynningarakstur, en alvöru reynsluakstur mun fara fram þegar bíllinn kemur til landsins í júní.

Minni og 420 kílóum léttari

Til að byrja með skulum við aðeins skoða hverjar helstu breytingar eru á milli kynslóða Vitara. Nýr Vitara er minni bíll en áður, hann er 325 mm styttri en sá sem hann leysir af hólmi, 35 mm mjórri og 85 mm lægri. Hjólhaf nýja bílsins er 140 mm styttra og veghæðin minnkar um 15 mm, úr 200 mm í 185 mm. Það er athyglisvert að skoða þessar stærðartölur í samanburði við nýjan Suzuki S-Cross því að þeir eru ansi nálægt hvor öðrum í stærð. S-Cross er til dæmis 125 mm lengri en nýr Vitara og með 100 mm lengra hjólhaf. Fyrir vikið er Vitara kominn ansi nálægt Nissan Juke og Skoda Yeti í stærðartölum og mun því allt eins keppa við þá eins og Nissan Qashqai sem dæmi. Þótt nýja kynslóðin sé minni bíll er hann ekki síður rúmgóður eins og fyrirrennarinn. Til að mynda er farangursrýmið 398 lítrar í gamla bílnum og 375 í þeim nýja. Þar að auki er það orðið aðgengilegra og betur útfært, með festingum fyrir botnplötuna á mismunandi stöðum til að breyta eftir þörfum hvers og eins. Loks er nýrri bíllinn töluvert léttari en eldri gerðin og munar þar um marga hluti. Notast er við meira af hágæðastáli og léttmálmum en áður, vélarnar eru minni og þar af leiðandi léttari og einfaldara fjórhjóladrif gerir sitt til að létta hann líka. Eigin þyngd gamla bílsins var 1.580 kg með tveggja lítra bensínvélinni en aðeins 1.160 kg með 1,6 lítra bensínvél, og munar ansi mikið um þessi 420 kíló sem farin eru. Ef haldið væri mót Biggest Loser meðal bíla yrði Vitara án efa sigurverarinn.

Hagkvæm dísilvél

En hvernig munar þá um bílana í akstri myndi einhver spyrja? Það segir sig sjálft að kynslóðirnar eru gjörólíkar og nýr og léttari bíll gerir betur í flestum tilfellum. Við ókum bílnum mest með sex gíra beinskiptingu og dísilvélinni sem er ansi skemmtilegur rokkur. Þótt hún sé ekki sú þýðgengasta á markaðinum er hún vel einangruð frá farþegarýminu og heyrist ekki mikið í henni þar. Hún togar mjög vel eða 320 Newtonmetra og ætti því að vera fyrsti kostur þeirra sem þurfa að draga ferðavagna. Tvær 1,6 lítra vélar eru í boði, bensín og dísil og báðar vélarnar skila 118 hestöflum. Bensínvélin er hins vegar aðeins með 156 Newtonmetra tog og eyðir 5,6 lítrum í blönduðum akstri meðan dísilvélin fer niður í aðeins fjóra lítra sem er með því besta sem gerist í fjórhjóladrifnum bíl. Auk þess er magn koltvísýtrings með því lægsta sem gerist í þessum flokki eða aðeins 106 gr/km í díslvélinni. Fjórhjóladrifið er það sama og í S-Cross og kallast Allgrip en með takka milli framsæta má skipta á milli Auto, Sport, Snow og Lock. Talsverður munur er á þessum stillingum og til að mynda virkaði bíllinn mun rásfastari með sportstillingunni þar sem hann sendir meira afl til afturhjólanna en í Auto-stillingunni. Snow- og Lock-stillingar létta honum svo lífið í torfærum en leysa þó ekki gamla fjórhjóladrifið af hólmi. Eins hefur Sport-stillingin áhrif á virkni stýrisins og satt best að segja er nýr Vitara með skemmtilegri akstursbílum í þessum flokki.

Verður ódýrari en Grandinn

Að innan er útlitið mun ferskara en áður og meira um glansandi efni en áður í mælaborði. Hægt er að panta sama lit á suma fleti mælaborðsins og er á utanverðum bílnum sem lyftir útlitinu aðeins. Auðvitað mætti efnisval vera betra en það var viðbúið í þessum verðflokki. Vinstra megin við stýri eru nokkrir takkar sem slökkva á mikilvægum hlutum eins og spólvörn, sjálfvirkum ræsibúnaði og bakkskynjara eða virkja hallaviðnám eða fjarlægðarskynjara fyrir skriðstilli. Þessir takkasamstæða er í hvarfi bak við stýrið sem undirrituðum þótti nokkur ókostur. Pláss fyrir farþega er allgott og sérstaklega höfuðrýmið. Aftur í getur farið allvel um fjóra meðalstóra fullorðna og nokkuð rúmt er um farþega frammí, þótt setan í framsætum sé í styttra lagi sem getur verið þreytandi á lengri ferðum. Einn af aðalkostum bílsins er samt hversu vel hann er búinn tæknibúnaði. Við höfum minnst á fjölhæft fjórhjóladrifið en hann er líka búinn góðum sjö tomma snertiskjá með Mirrorlink snjallsímatengingu. Hún gerir notandanum kleift að spegla snjallsíma sinn við skjáinn og jafnvel að nota smáforrit í gegnum hann líka. Auk þess er hann með leiðsögukerfi, aksturstölvu og öflugu hljómkerfi með stafrænu útvarpi. Ekki er komið endanlegt verð á nýjar Suzuki Vitara en að sögn Úlfars Hinrikssonar, framkvæmdastjóra Suzuki, verður hann nokkuð ódýrari en Grand Vitara sem kostar frá 5.520.000 kr. Skoda Yeti byrjar í 5.160.000 kr. og fjórhjóladrifinn Nissan Juke er á aðeins 4.590.000 kr. svo að nýr Vitara verður að lækka talsvert til að vera á milli þessara tveggja í verði.

njall@mbl.is

Kostir Aksturseiginleikar, búnaður, farangursrými

Gallar Takkar vinstra megin, stutt seta framsæta

Sett hafði verið upp torfærubraut fyrir blaðamennina sem komnir voru …
Sett hafði verið upp torfærubraut fyrir blaðamennina sem komnir voru að reynsluaka bílnum en íslendingunum þótti lítið til hennar koma.
Farangursrýmið er 375 lítrar sem er aðeins 23 lítrum minna …
Farangursrýmið er 375 lítrar sem er aðeins 23 lítrum minna en í Grand Vitara en mun praktískara og kostur hversu vel aðgengilegt það er.
Að innan er bíllinn stílhreinn og nýtískulegur sjö tommu snertiskjár …
Að innan er bíllinn stílhreinn og nýtískulegur sjö tommu snertiskjár með Mirrorlink snjallsímatengingu og leiðsögukerfi er punkturinn yfir i-ið.
Betri frágangur er kringum vélina en áður í Suzuki Vitara …
Betri frágangur er kringum vélina en áður í Suzuki Vitara og hjóðeinangrun er meiri en áður. Þá togar hún býsna vel eða 320 Nm.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: