Flaggskip á góðri siglingu

Flaggskip flotans hefur gengið í gegnum þónokkrar breytingar, meðal annars …
Flaggskip flotans hefur gengið í gegnum þónokkrar breytingar, meðal annars í útliti. mbl.is/Malín Brand

Gjörbreytt Mazda6 var kynnt haustið 2012 og vakti djarfur og kraftalegur framendinn athygli, enda tókst hönnuðum einkar vel til.

Sú kynslóð, þriðja kynslóð Mazda6, hefur selst vel og vakið athygli fyrir margt annað en útlitið og má þar til dæmis nefna sparneytni og aukið innanrými. Nú hefur enn meiri breyting orðið á þessum áhugaverða bíl sem framleiðandinn hefur stundum kallað flaggskipið í flotanum. Að innan hefur bíllinn verið endurhannaður og framendinn hefur fengið nokkra breytingu sem ekki er til hins verra. Ný LED-framljós leika þar stærsta hlutverkið. Tæknilegar breytingar eru mun fleiri eins og hér verður nánar rakið.

Hvað er breytt?

Í fyrsta skipti verður hægt að fá Mazda6-dísilbílinn með fjórhjóladrifi og er það sannarlega góð viðbót. Sá fjórhjóladrifni er einni og hálfri milljón dýrari en grunnbíllinn og kostar þá 5.490.000 kr. Upplýsinga- og afþreyingarkerfið er nýtt og einfalt í notkun og efni mælaborðs og miðjustokks eru ný, svo það helsta sé nefnt. Í fyrsta skipti býður Mazda upp á hita í aftursætum og er það vel. Einnig er gert vel við farþega afturí með enn meira fótarými en áður. Tvennt var það sem gladdi blaðamann afskaplega mikið. Í fyrsta lagi ber að nefna að bíllinn er orðinn einstaklega hljóðlátur. Búið er að hljóðeinangra Mazda6 með eindæmum vel og árangurinn er 25% minna veghljóð en áður. Bæði er búið að betrumbæta einangrunarefnið sem notað er og þéttiefnið á fölsum og svo er gólfteppið nýtt og öflug einangrun undir því. Hitt sem ég skemmti mér yfir var hæðarmælirinn sem hægt er að hafa uppi á skjánum ásamt áttavita. Það er skemmtilegt að sjá hve hátt maður er yfir sjávarmáli á leið upp Kambana, til dæmis. Ekki nauðsynlegur mælir en skemmtilegur. Því fleiri mælar því betra!

Akstur og eyðsla

Það er góð tilfinning að setjast inn í rennilegan bílinn. Ekki bara af því að hann er flottur og fágaður útlits heldur af því að hann er vænn fyrir neytendur. Stórir sem smáir komast auðveldlega inn og út, enda bíllinn í góðri hæð og dyr stórar.

Í reynsluakstrinum var skutbíll (station) prófaður og bæði í honum og hinum hefðbundna fólksbíl er flennistórt farangursrými. Þó að bíllinn sé svakalega stór þá er hann léttur, eða 1.300 kíló. Hann vinnur vel og dísilbíllinn (2.2 l) togar býsna vel. Sprækur er hann en eyðslutölurnar eru til þess fallnar að koma manni á óvart. 5.3 lítrar á hundraðið í blönduðum akstri var það sem mér tókst að koma honum niður í og það þótti mér flott!

Þó mér þætti gaman að aka bílnum vantaði örlítið upp á „karaktereinn“. Mazda6 er ekki karakterlaus í akstri en furðuflatur. Hann gerir allt sem ætlast er til og liggur skemmtilega á veginum en það vantar örlítið krydd í aksturinn. Fallegur er hann og heillandi að sjá. Svo fagur að ekki get ég með nokkru móti ímyndað mér að með aldrinum verði hann ólögulegur eða hallærislegur.

Hafa ber í huga að hægt er að fá Mazda6 með 2.0 l og 2.5 l bensínvél og dísilvélin er 2.2 l. Hestöflin eru frá 145 til 192 og svo má, eins og þegar hefur komið fram, fá dísilbílinn í fjórhjóladrifsútgáfu. Það er því um eitt og annað að velja.

Hörð samkeppni

Það eru verðugir keppinautar sem Mazda6 á sér og samkeppnin er hörð, rétt eins og hún ætti að vera. Þrátt fyrir að skutbíll hafi verið til reynslu verða hér til einföldunar bornar saman fólksbílaútfærslur (sedan) tegundanna. Þeir bílar sem um ræðir eru Ford Mondeo, Honda Accord, Hyundai i40, Skoda Octavia A7, Toyota Avensis og VW Passat. Áhugavert er að sjá að grunnverð þriggja bílanna er mjög svipað eða 3.990.000 kr. en skoðum tölurnar aðeins betur. Hyundai i40 fæst með sérpöntun og er hann á hæsta verðinu af bílunum sjö eða á 5.490.000 kr. Næsthæsta verðið er á Honda Accord sem er nú á tilboði eða 4.190.000 kr. í stað 4.590.000 kr. Þar á eftir kemur Toyota Avensis sem kostar frá 4.090.000 kr. og því næst ber að nefna tríóið Mazda6, Ford Mondeo og VW Passat sem allir kosta frá 3.990.000 kr. Ódýrastur er Skoda Octavia A7 en hann kostar frá 3.790.000 kr. sem verður að teljast býsna gott.

malin@mbl.is

Hönnun bílsins vekur athygli á alla kanta og þykir blaðamanni …
Hönnun bílsins vekur athygli á alla kanta og þykir blaðamanni hún góð. mbl.is/Malín Brand
Að innan er Mazda6 gjörbreytt og tækninýjungarnar fjölmargar. Hljóðeinangrun hefur …
Að innan er Mazda6 gjörbreytt og tækninýjungarnar fjölmargar. Hljóðeinangrun hefur verið bætt til muna.
Farangursrýmið er einkar rúmgott eða 480 lítrar.
Farangursrýmið er einkar rúmgott eða 480 lítrar.
Afþreyingakerfið er vandað og möguleikarnir fjölmargir fyrir tæknilega.
Afþreyingakerfið er vandað og möguleikarnir fjölmargir fyrir tæknilega.
Fótarými er töluvert aftur í bílnum og þar eru líka …
Fótarými er töluvert aftur í bílnum og þar eru líka sætishitarar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: