Léttur í spori og við budduna líka

Mikið hefur verið fjallað um verðlaunabílinn Citroën C4 Cactus en hann er loksins kominn á markað á Íslandi.

Líkt og annars staðar hefur hann vakið mikla athygli, svo mikla að við blaðamenn sem höfum atvinnu af því að prófa bíla, gátum ekki fengið eintak strax til prófunar því að þau seldust öll upp. Þó kom að því að við fengum eintak til prófunar og það með nýju 1,6 lítra Blue HDi dísilvélinni. Bíllinn vakti athygli hvert sem hann fór og allir virtust hafa skoðun á þessum sérstaka bíl.

Pakkað inní bóluplast

Við höfum áður séð bíla með viðarklæðningu, eða plastlistum á hliðunum en að pakka bílnum inní bóluplast er nýtt. Citroën kallar þessa lausn Airbumps en það er mjúkt en sterkt plastefni sem inniheldur loftbólur. Þannig þolir bíllinn það þótt að innkaupakerra eða bílhurð rekist utan í, án þess að eitthvað sjáist á honum. Við prófuðum reyndar ekki innkaupakerruna en bílhurðaprófið stóðst hann með miklum ágætum. Plastefnið er ekki bara á hliðum hans því að það er líka á hornum hans sem minnkar hættu á skemmdum þegar franska aðferðin er notuð við að leggja í stæði. Að innan er bíllinn einnig öðruvísi en flestir bílar. Fátt er um takka og annan stjórnbúnað en í stað þess er stór, sjö tommu snertiskjár fyrir miðjum bílnum sem fangar athyglina. Þaðan er líka hægt að stjórna öllum aðgerðum eins og miðstöð, hljómtækjum, síma og aksturstölvu. Auðvelt er að fletta á milli aðgerða þar sem til hliðar eru snertitakkar sem hleypa manni beint í viðkomandi aðgerð. Að vísu hefði miðstöð mátt hafa gráðustillingu fyrst farið var að búa hann svona en annars virkaði þessi stjórnbúnaður með ágætum.

Ekkert prjál, takk fyrir

Cactus er heilum 200 kílóum léttari en hefðbundinn C4. Augljóst er við nánari skoðun að margt hefur verið látið flakka, hvort sem það var talið óþarfi eða einfaldlega til þess að létta bílinn og minnka framleiðslukostnað. Til dæmis eru engin formótuð plastefni í hliðarhurðum heldur einfaldlega handfang úr tauefni. Sætin eru mjúk og úr einföldum efnum og afturí eru engir rúðuhalarar heldur einföld stormjárn. Enginn snúningshraðamælir er í bílnum og heldur enginn aðdráttur á stýri. Í fyrsta skipti í bíl er nú búið að koma öryggispúða fyrir framsætisfarþega í lofti bílsins og þess vegna er ekki bara gott pláss fyrir framan hann í hanskahólfinu, heldur er framrúðan líka lægri og veitir betra útsýni. Engin miðstöðvartúða er þó hægra megin fyrir farþegann frammí, hvort sem það hefur verið til að spara pláss eða þyngd, eflaust hvort tveggja. Farangursrými er gott eða heilir 358 lítrar en það er talsverður ókostur að ekki er hægt að fella það niður í tveimur hlutum. Ef flytja þarf langan hlut er eins gott að farþegarnir séu ekki fleiri en tveir.

Léttur í akstri

Að keyra Cactusinn er ekki eins leiðinlegt og sumir kynnu að halda. Þótt hann sé ekki búinn stórri vél er það hluti af ástæðunni því þær eru léttari. Hann er byggður á DS3 undirvagninum, þeim sama og í C3 og notast því við minni bremsur og er með einföldum fimm gíra kassa. Þess vegna sparast 150 kg bara við það og það sem sparast í innréttingu bílsins dregur 50 kíló frá í viðbót. Þess vegna eru 100 hestöflin sem fylgja vélinni alveg nóg. Bíllinn virkar léttur í öllum akstri, einnig þegar hann er látinn vinna í beygjum. Dísilvélin skilar góðu togi en hefði verið enn skemmtilegri með sex gíra kassa. Hún er nokkuð hávær á snúningi, en það sem gerir aksturinn þreytandi til lengdar er frekar mikið veghljóð. Fjöðrunin er dæmigerð fyrir Citroen, frekar mjúk og þess vegna hallar hann nokkuð í beygjurnar án þess þó að missa mikið veggrip. Má þar líklega þakka fyrir hversu léttur hann er en prófunarbíllinn sem er með stærstu og þyngstu vélinni er aðeins 1.070 kíló. Sagt hefur verið að kaktusplantan geti lengi dregið fram lífið án þess að fá vökva og það sama má segja um Cactus með Blue HDi dísilvélinni. Uppgefin eyðsla er aðeins 3,4 lítrar þó að erfitt hafi reynst að vera nálægt þeirri eyðslu í reynsluakstrinum sjálfum.

Veitir öfluga samkeppni í verði

Keppinautar C4 Cactus á Íslandi eru nokkrir og má þar helst telja Nissan Juke, Peugeot 2008 og Renault Captur. Cactus er boðinn á aldeilis fínu verði eða frá 2.690.000 kr og með nýju Blue GDi dísilvélinni á aðeins 3.090.000 kr. Peugeot 2008 kostar frá 3.130.000 kr og með sambærilegri dísilvél 3.695.000 kr. Hin samkeppnin frá Frakklandi er Renault Captur sem er aðeins boðinn með 1,5 lítra dísilvél. Sá bíll kostar 3.490.000 kr beinskiptur. Loksins er frændi hans Nissan Juke á verði frá 3.590.000 kr, einnig með 1,5 lítra dísilvél. Ljóst er því að Citroën C4 Cactus gerir vel í því að ná niður verði miðað við samkeppnina. Hvort hann nær að marka sömu spor og margir aðrir Citroën-bílar hafa gert í gegnum tíðina getur þó framtíðin ein leitt í ljós.

njall@mbl.is

Njáll Gunnlaugsson

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: