Lengi getur gott batnað

Toyota RAV4 hefur verið heimilisvinur Íslendinga í næstum 20 ár og var lengi vel ráðandi í sínum millijeppaflokki. Nýverið fékk bíllinn laglega yfirhalningu útlitslega og hefur líklega aldrei verið álitlegri.

Búið er að færa bílinn nær fjölskyldusvipnum sem er sterkur milli mismunandi gerða Toyota, fyrir utan Land Cruiser 150 og 200, og RAV4 er á góðum stað í tilverunni um þessar mundir. Þá er sérstaklega spennandi að hybrid-útgáfa er komin á markað sem gerir bílinn að verulega áhugaverðum kosti.

Sportlegur og þéttur í akstri

Það kemur fljótlega í ljós við akstur að útlit RAV4 er ekki það eina sem fangar athyglina heldur kemur satt að segja á óvart hvað hann er sportlegur í akstri. Fjöðrunin er mátulega stíf og gefur hörkufínt vald á bílnum, líka í kröppum beygjum, og RAV4 virkar sem þéttur, rammgerður og massífur á ökumanninn. Jafnvel þótt hann sé tekinn til kostanna án allra vettlingataka heyrist ekki múkk í innanrýminu, en fátt er eins íþyngjandi eins og innrétting sem stynur þegar farið er í skarpar beygjur. Það fer alveg með stemninguna. Því er hins vegar ekki að heilsa hér og það er sérstaklega ánægjulegt þar sem jepplingurinn er hár á vegi. Allt kemur fyrir ekki, hann heldur sér ljómandi vel og hér þarf ekki að halla sér á móti miðflóttaaflinu þegar sveigt er greitt gegnum beygjurnar.

Stiglaus sjálfskipting stelur afli

Sjálfskipti RAV4 hybrid-bíllinn er búinn stiglausri CVT-sjálfskiptingu, sem virkar dægivel á þá sem aka átakalaust í gegnum daginn; þá má eiginlega segja að maður líði um á hljóðlátu skýi án þess að finna nokkurn tíma fyrir því að bíllinn skipti um gír. Málið vandast hins vegar nokkuð þegar og ef til stendur að botna bílinn og sjá hvað hann dregur. Þá fer vélin á tímabundinn yfirsnúning og hvæsir talsvert til baka. Þetta er tilfellið hér, eins og við er að búast, en á móti kemur að vélin togar samt sem áður glettilega fljótt og vel, og bíllinn er óvenju röskur í hundraðið, um átta og hálfa sekúndu. Það er alls ekki amalegt fyrir jeppling af þessari stærð og gerð. Nærfellt allar gerðir RAV4 voru prófaðar og hybrid-útgáfan er þeirra skemmtilegust, enda hefur hún mest aflið.

Fallegur og vel búinn að innan

Þegar komið er inn í bílinn er vel tekið á móti ökumanni og farþegum. Þrátt fyrir rennilega þaklínuna, sem lækkar eftir því sem aftar dregur, er hátt til lofts og enn fremur vítt til fóta, ef svo má að orði komast. Plássið er satt að segja feikilegt. Efnisval í mælaborði og innréttingu er líka ákaflega smekkleg og fínt.

Toyota Touch margmiðlunarkerfið er ljómandi gott í allri meðferð og fljótlegt að tileinka sér valkosti þess, enda viðmótið á snertiskjánum prýðilega hannað og notendavænt.

Þá er skottið hreint hörkugott og gerir bílinn að fínasta valkosti fyrir þá sem vilja fá stórt farangursrými með góðu aðgengi, og rafdrifin opnun og lokun spillir ekki fyrir nema síður sé. Þá er vert að geta þess að útblásturs- og eyðslutölur eru með þeim hætti að Toyota er sómi að.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: