Vel búinn en vélarvana

Hvað, er þetta nýr bíll? Þetta er spurning sem margir kynnu að spyrja þegar talað er um nýja Kia Optima. Staðreyndin er sú að hér er um alveg nýja kynslóð af bílnum að ræða þótt útlitsbreytingin sé ekki mikil.

Kia Optima er einn vinsælasti fjölskyldubíllinn vestanhafs en sá kaupendahópur kaupir frekar jepplinga í Evrópu. Optima er stefnt til höfuðs Ford Mondeo, Opel Insignia og VW Passat en sökum stærri botnplötu en áður kemst hann ansi nálægt Skoda Superb í stærð og rými og er honum fullboðlegur keppinautur.

Góður akstursbíll

Það dylst svo sem fáum að Kia Optima er fallegur bíll enda kemur hönnun hans frá Peter Schreyer, þeim sem hannaði líka Sportage-jepplinginn upp á nýtt. Kannski einmitt þess vegna kusu hönnuðir Kia að breyta útliti nýja bílsins ekki um of svo að breytingarnar minna meira á andlitslyftingu, með endurhönnuðu, grilli, stuðurum og ljósum. Bíllinn er hins vegar stærri en fyrsta kynslóð hans, hjólhafið er aukið um 10 mm eins og hæðin, en mest munar um að bíllinn er 25 mm breiðari en áður. Í undirvagninn fór nú 50% meira hástyrktarstál en áður sem léttir bílinn um leið og það styrkir hann og bætir aksturseiginleika. Sjálfstæð fjölliða MacPherson-fjöðrun er á öllum hornum bílsins og hann er skemmtilegur að keyra, það skemmtilegur að maður saknar að hafa ekki talsvert öflugri rokk en 136 hestafla dísilvél undir húddinu.

Þótt 1,7 lítra dísilvélin sé kunnugleg er hún fimm hestum öflugri og togið kemur inn fyrr á snúningssviðinu, en eflaust yrði þessi bíll mun skemmtilegri með 2,4 lítra bensínvélinni sem í boði er vestan hafs, en í Evrópu er hann aðeins í boði með dísilvélinni. Sjálfskiptingin virkar vel við þessa vél og er fljót að skipta bílnum í sportstillingunni og má eiginlega segja að bíllinn skipti algerlega um ham þannig. Við reyndum bílinn líka í talsverðum snjó og afskiptasöm spólvörn gerði honum erfitt fyrir í aðstæðum sem að auðvelt er að ráða við án spólvarnar.

Betri innrétting og meira rými

Innréttingin í nýrri Optimu er talsvert mikil framför og mun meira vandað til verka en í fyrri kynslóð. Sætin eru stór og þægileg og plássið til fyrirmyndar og þá sérstaklega fótapláss í aftursætum. Höfuðrými mætti reyndar vera meira í aftursætum en þar spilar sólþakið hlutverk en slíkur búnaður tekur venjulega pláss frá höfuðrými næst hurðum. Farangursrými er ekki það besta í flokknum en telur þó 510 lítra en það er ekki eins aðgengilegt og hjá keppinautunum. Í grunninn var reynsluakstursbíllinn vel búinn með fídusum eins og myndavélum allan hringinn, þráðlausri hleðslu fyrir farsíma, glerþaki, Harman Kardon hljómtækjum, loftkældu hanskahólfi og fleira. Þarna er verið að tala um Premium-útfærsluna sem kostar 5.990.777 kr. en satt best að segja gæti grunnverð Optima verið betra, en hann byrjar í 5.190.777 kr.

Ef við skoðum aðeins samkeppnina kostar Ford Mondeo með tveggja lítra dísilvélinni frá 5.090.000 kr. og Opel Insignia með 1,6 lítra dísilvélinni 4.690.000 kr. og hefur þar vinninginn enda einnig vel búinn eins og Optima. Stærðarinnar vegna má þó alveg eins bera saman Optima og Skoda Superb og kannski er Optima eini raunhæfi keppinauturinn við þann bíl. Í verði hefur þó Skódinn einnig vinninginn en Superb í Style-útfærslu með 150 hestafla dísilvél kostar 5.360.000 kr. og aðeins 4.710.000 kr. með 1,6 lítra dísilrokknum.

njall@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: