Talsvert bættur Tiguan

Greinarhöfundur stillir sér upp við VW Tiguan í uppáhaldslit undirritaðs, …
Greinarhöfundur stillir sér upp við VW Tiguan í uppáhaldslit undirritaðs, Habanero Orange. Ný kynslóð þessa jepplings hefur tekið allnokkrum stakkaskiptum að útliti, sem er vel. Ljósmynd/Volkswagen

Volkswagen braut blað í sögu sinni þegar Touareg-jeppinn kom á markaðinn árið 2003. Fjórum árum síðar sendu VW-verksmiðjurnar frá sér jepplinginn Tiguan, keimlíkan útlits en þó einfaldari að sjá.

Undirritaður skal fyrstur viðurkenna að upprunalega útlitið á Tiguan heillaði heldur takmarkað og það er því sérlega ánægjulegt að sjá hvað ný kynslóð þessa netta jepplings er rækileg bragarbót frá því sem var. Þó bíllinn hafi frekar gengið í gegnum það sem kalla mætti þróun á útliti í stað umbyltingar þá er búið að skerpa á línum bílsins, hringinn í kring, með frábærlega vel heppnuðum árangri. VW Tiguan er í einu orði sagt hörkuflottur. Og það sem meira er, það er þrælgaman að keyra hann.

Stærri bíll á alla kanta

Síðan VW Tiguan kom fyrst á markaðinn árið 2007 hefur Volkswagen selt um 2,8 milljón stykki af honum. 25% seldust í Þýskalandi, 60% í öðrum Evrópulöndum samanlögðum og síðustu 15% skiptust á afganginn af heimsmarkaðnum. Úr þessum tölum er hægur vandi að lesa það út að bíllinn hefur ekki beinlínis slegið í gegn á Bandaríkjamarkaði og þar hefur fólk helst kvartað undan smæð hans og háu verði sambanborið við samkeppnina. Með þetta í huga hafa höfuðstöðvarnar í Wolfsburg stækkað Tiguan á alla kanta. Bíllinn er lengri, breiðari, hjólhafið er 8 sentimetrum meira en á síðustu kynslóð og fótarýmið er 3 sentimetrum meira aftur í. Farangursrýmið hefur aukist úr 520 lítrum í 615 lítra um leið og skottloksopnunin er 7% stærri en á síðustu árgerð. Vert er að benda á að samtímis framangreindu hefur bíllinn verið léttur um heil 82 kíló. Enginn getur því með góðu móti kvartað undan plássinu því það nýtist fantavel í hinum nýja Tiguan.

Að innan lítur bíllinn einkar vel út, stílhreinn og vandaður, og upplýsingaskjárinn sem er ökumanni innan handar er einkar aðgengilegur og auðveldur í allri notkun.

Kemur á óvart í ófærum

Tiguan var prófaður í Berlín fyrr í sumar og fóru torfæruprófanir fram í hjólabrettagarðinum Mellow Park. Þar höfðu verið settar upp talsvert krefjandi brautir með köflum sem voru hreint ekki árennilegar ásýndar. En Tiguan, í sérstakri „Off-Road“ stillingu, leysti sín verkefni með miklum sóma og Hill Descent Control (niður-hallandi skrið) reyndist sérlega vel, jafnvel í skuggalega miklum halla fram á við. Það er því mikill misskilningur á ferðinni ef einhver heldur að Tiguan sé einungis borgar-jepplingur. Það er öðru nær, það er dagljóst að hann mun pluma sig og rúmlega það ef og þegar á þarf að halda.

Þegar á malbikið var komið rann hann þægilega um og reyndist bráðgóður bæði á þjóðvegum og í innanbæjarakstri. Þó verður að segjast að svolítið meira afl hefði ekki sakað, ekki síst þar sem togið nær ekki flugi fyrr um miðbik snúningssviðsins. Þegar hestarnir undir húddinu eru af takmörkuðum fjölda má vel gera aksturinn snarpan og ánægjulegan með því að togið taki við sér strax í upptakinu. Þetta er vitaskuld enginn spyrnubíll og ekki smíðaður sem slíkur en svolítið meira fútt hefði samt ekki sakað nokkurn skapaðan hlut. Stífbónaður og glansandi er þessi bíll eigendum sínum til sóma og það er traustvekjandi að vita til þess að hann mun finna sig jafnvel á vondum vegum, drullugur upp fyrir þak.

Að endingu má geta þess að af þeim litum sem til sýnis voru þótti þeim er þetta ritar einn áberandi skemmtilegastur. Vínrauður, silfurlitur, svartur og kóngablár voru allir góðir út af fyrir sig, en hinar nýju línur VW Tiguan nutu sín sérlega vel í þykkum, appelsínurauðum lit sem kallast „Habanero Orange“ eftir hinum bragðsterka mexíkóska pipar. Hann fangaði augað og sleppti því ekki svo glatt.

Þegar mest gekk á var blaðamanni ekki um sel við …
Þegar mest gekk á var blaðamanni ekki um sel við prófanir á jepplingnum en Tiguan lét sér fátt um finnast og rúllaði hverri þrautinni upp á fætur annarri. Torfærueiginleikar bílsins komu satt að setja skemmtilega á óvart.
Tiguan er feikivel búinn innan dyra og umhverfið allt fyrirtak. …
Tiguan er feikivel búinn innan dyra og umhverfið allt fyrirtak. Tvílitt leður og upplýsingaskjárinn eiga þar ekki minnstan þátt.
Volkswagen Tiguan var látinn spreyta sig á margs konar torfæruþrautum …
Volkswagen Tiguan var látinn spreyta sig á margs konar torfæruþrautum í Berlín og leysti þær allar saman með miklum sóma.
Volkswagen Tiguan var látinn spreyta sig á margs konar torfæruþrautum …
Volkswagen Tiguan var látinn spreyta sig á margs konar torfæruþrautum í Berlín og leysti þær allar saman með miklum sóma.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: